„Mjög miður að af þessu hljótist kostnaður“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, á Alþingi í dag. Bjarni sagðist hafa átt gott samtal við Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, um útgáfu ritsins, en harmaði að einhver kostnaður hlytist af breyttum formála. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Ég vil bara ítreka það að það er auðvitað mjög miður að af þessu hljótist einhver kostnaður. Ég er ekki í neinum ágreiningi við háttvirtan þingmann um það en ítreka sömuleiðis að við munum alveg standast allar áætlanir um kostnað við útgáfu bókarinnar sem þetta mál snýst um.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag þar sem Inga Sæland, formaður Flokk fólksins, gerði útgáfu bókar í tilefni 80 ára lýðveldisafmælis að umtalsefni. 

Eðlileg skilaboð?

Inga vísaði í fréttir af því að það stæði til að farga um 30.000 eintökum af bókinni þar sem formálinn hefði verið ritaður af Katrínu Jakbobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem er nú í forsetaframboði. 

„Er það svona, hæstvirtur forsætisráðherra, að það sé svona sem að talið er eðlilegt að ganga um ríkissjóð og fjármuni almennings,“ spurði Inga og velti því fyrir sér hvort þetta væru eðlileg skilaboð út í samfélagið. 

Verkið enn innan áætlana

Bjarni kvaðst vera hrifinn af hugmynd Katrínar um að gefa út þetta rit og gera fjallkonunni hátt undir höfði af þessu tilefni. 

„En það gerist síðan eftir að forsætisráðherrann biðst lausnar að þá liggur fyrir að á útgáfudegi ritsins væri rangt að segja að það sé forsætisráðherra sem skrifi formálann. Þess vegna fór það bara í sjálfsagðan og eðlilegan feril að breyta formálanum. Það er ekki stór ákvörðun heldur þykir leiða af eðli máls. Það er rétt hjá háttvirtum þingmanni að af þessu verður einhver kostnaður. Það er mjög miður og ég harma það. En verkið í heild sinni er enn þá alveg innan áætlana og ég held að við eigum að beina sjónum að því hversu vel mun takast til með ritið og hversu mikilvægt mál það er menningarsögulega fyrir okkur Íslendinga að minnast fjallkonunnar og halda til haga sögunni, upprunanum og tengslunum við þjóðhátíðardaginn,“ sagði Bjarni. 

Eru ágætlega sammála

Inga sagði að það liti óneitanlega einkennilega út að Katrín, sem ætti hugmyndina að þessu riti, yrði svipt formálanum.  

„Ég vil bara ítreka það að það er auðvitað mjög miður að af þessu hljótist einhver kostnaður. Ég er ekki í neinum ágreiningi við háttvirtan þingmann um það en ítreka sömuleiðis að við munum alveg standast allar áætlanir um kostnað við útgáfu bókarinnar. Sem þetta mál snýst um er einfaldlega það, að þegar bókin verður gefin út þá er í sjálfu sér ekki rétt að það sé þáverandi eða sitjandi forsætisráðherra sem að skrifar undir formálann,“ sagði Bjarni.

Hann bætti við að hann hefði átt samtal við Katrínu um þetta mál.  „Ég held að við séum bara alveg ágætlega sammála um að það skjóti dálítið skökku við að það sé gefin út bók á vegum Stjórnarráðsins löngu eftir að ráðherrann hefur beðist lausnar. Og varðandi það að fyrrverandi ráðherra átti veg og vanda af útgáfu ritsins þá get ég líka sagt, að sjálfsögðu læt ég þess getið í formálanum. Ég mun ekki taka neitt af fyrrverandi forsætisráðherra varðandi það að hún átti hugmyndina að því að setja vinnununa af stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert