Tæplega 80 greinst með kíghósta

Kíghóstasmit halda áfram í samfélaginu.
Kíghóstasmit halda áfram í samfélaginu. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa 43 manns greinst með staðfestan kíghósta hér á landi frá byrjun apríl. Til viðbótar hafa 36 einstaklingar verið greindir með kíghósta án PCR-prófa.

Þetta staðfestir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Flest smitanna eru á höfuðborgarsvæðinu en einhver hluti hefur greinst í öðrum heilbrigðisumdæmum.

„Það eru einhver fleiri tilfelli þarna úti. En rannsóknastofan á Landspítalanum sendir allt til okkar og svo erum við að fá mikinn hluta af hinum,“ segir Guðrún.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Hallur Már

Áfram í dreifingu

„Þetta er ekkert stórmál og við erum ekki að elta tölur frá degi til dags eins og Covid. En það segir okkur að þetta er áfram í dreifingu. Tilfellum hefur fjölgað frá síðustu viku og við þurfum bara að vera vakandi fyrir því áfram,“ segir Guðrún.

Vitað er af tveimur einstaklingum sem voru lagðir inn á spítala vegna kíghósta. Spurð hvort hún viti af fleirum svarar hún því neitandi.

„Við erum með þessi staðfestu tilfelli en það eru ekki fleiri af þeim sem hafa verið lögð inn.“

Mikilvægt að prófa og tilkynna

Hún segir mikilvægt að læknar og aðrir haldi áfram að vera vakandi fyrir einkennum og prófa fyrir kíghósta. Mikilvægt er að taka sýni til rannsóknar hjá viðkvæmum hópum til að fá rétta greiningu og meðhöndlun.

Líklegt er að úti séu fleiri smit sem ekki hafa verið tilkynnt til sóttvarnalæknis.

„Við vitum að þetta eru ekki öll tilfellin. Þó að kíghósti sé tilkynningaskyldur og rannsóknastofur og læknar eiga að tilkynna hann til okkar samkvæmt lögum þá vitum við að varðandi kíghóstann er því ekki hundrað prósent skilað,“ segir Guðrún. 

Aðrar veirusýkingar að kveðja

Spurð hvort aðrar veirusýkingar séu í gangi segir Guðrún að hinar og þessar kvefveirur hafi gert vart við sig en lítið er um inflúensu og hvorki sé vitað til covid-smita né RS-veirusmita.

Hún segir flestar veirusýkingar nú vera að renna sitt skeið í takt við árstímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert