Valdimar O. Hermannsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri á Vopnafirði. Samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í gær að ráða hann út þetta kjörtímabil. Sara Elísabet Svansdóttir lét nýverið af störfum sem sveitarstjóri.
Greint er frá ráðningunni á vef Vopnafjarðarhrepps. Þar segir að 17 hafi sótt um starfið en tveir hafi dregið umsókn sína til baka. Fjórir voru boðaðir í viðtöl.
Valdimar var áður sveitarstjóri hjá Blönduósbæ á árunum 2018-2022 og starfaði jafnframt tímabundið fyrir Húnabyggð sem staðgengill sveitarstjóra. Áður sat hann í 12 ár í bæjarstjórn og sex ár í bæjarráði Fjarðabyggðar, og var á sama tíma verkefna-, rekstrar- og innkaupastjóri fyrir HSA.
Þá gegndi hann fjölmörgum trúnaðarstjörfum á Austurlandi og víðar, meðal annars sem formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi – SSA, fyrsti formaður Austurbrú ses, formaður stjórnar HAUST og Náttúrustofu Austurlands, segir á vef Vopnafjarðarhrepps.
Þar segir jafnframt að Valdimar sé markaðsfræðingur að mennt en hafi einnig lagt stund á fjölbreytt nám, meðal annars í verkefnastjórn og leiðtogaþjálfun, alþjóðaviðskiptum, stjórnun og markmiðasetningu, bæði hérlendis og erlendis.
Valdimar er fæddur árið 1960. Hann er kvæntur Vilborgu Elvu Jónsdóttur sem starfar sem skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítala og samtals eiga þau fjögur uppkomin börn.