Átök í Ölfusi: Atkvæðagreiðslu íbúa frestað

Framkvæmdir First Water vestan við Þorlákshöfn.
Framkvæmdir First Water vestan við Þorlákshöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Fresta á atkvæðagreiðslu íbúa í sveitarfélaginu Ölfusi sem átti að halda á morgun, laugardag, um óákveðinn tíma.

Ástæðan er kvörtun forstjóra First Water um að mölunarverksmiðja Heidelberg í Þorlákshöfn kæmi ekki til með að fara saman við matvælaframleiðslu í nágrenninu. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi Ölfuss sem haldinn var í dag.

Atkvæðagreiðslan sneri að því hvort að íbúar sveitarfélagsins „vilji samþykkja eða hafna því að samþykktar verði þær deili- og aðalskipulagstillögur sem liggja til grundvallar starfsemi tilgreindrar mölunarverksmiðju sem Heidelberg hyggst starfrækja,“ að því er segir í fundargerð bæjarstjórnar.

Boðað var til atkvæðagreiðslunnar með auglýsingu 28. apríl. Á miðvikudagskvöldið 15. maí barst bæjarfulltrúum bréf frá Eggerti Kristóferssyni, forstjóra First Water.

Sagði hann að óásættanlegt væri að í sömu götu og matvælaframleiðsla væri stæði til að byggja mölunarverksmiðju. Starfsemi fyrirtækjanna færi alls ekki saman né heldur bygging hafnar á sama svæði og First Water sækir jarðsjó.

Órökstuddar fullyrðingar

Bæjarstjórn sveitarfélagsins Ölfuss lýsti yfir furðu sinni á vinnubrögðum fyrirtækisins First Water í því sem lýtur að skipulagsmálum í sveitarfélaginu.

„Fram hefur farið ítarlegur undirbúningur vegna málsins sem í öllu hefur stjórnast af þeim lögum, reglum og hefðum sem gilda skulu um slíkt. Það vandaða ferli skilaði mörgum athugasemdum sem sérstaklega hefur verið brugðist við og svarað.

First Water sá sér ekki fært að fylgja vönduðum formlegum verkferlum til að koma rökstuddum ábendingum á framfæri, heldur beið þar til öllu formlegu ferli var lokið með að viðra skoðanir sínar.

Tveimur klukkutímum fyrir opinn borgarafund og þremur dögum áður en atkvæðagreiðsla hæfist var lögð fram þriggja málsgreina bréf þar sem fullyrt var um skaðsemi af starfsemi Heidelberg fyrir First Water. Fullyrðingarnar voru með öllu órökstuddar og án nokkurra gagna,“ segir í bókun Erlu Sifjar Markúsdóttur fyrir hönd bæjarfulltrúa D-lista.

Fylli málið allt vafa

Atkvæðagreiðslu íbúa verður frestað vegna þess að bæjarstjórn Ölfuss telur að bréf forstjóra First Water fylli málið allt vafa og óvissu sem ekki verði við unað.

„Þrátt fyrir ámælisverð vinnubrögð verður ekki hjá því litið að First Water er einn stærsti hagsmunaðilinn í þessu máli,“ segir einnig í bókun Erlu Sifjar.

Bæjarstjóra var falið af bæjarstjórn að kalla tafarlaust eftir fundi með fulltrúum First Water þar sem óskað yrði eftir því að fram verði lögð gögn sem styðji þær fullyrðingar sem fram komu í bréfi forstjóra First Water.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert