Diljá Mist: Jafnlaunavottun skaðvaldur

Diljá Mist hefur lagt fram frumvarp þess efnis að afnema …
Diljá Mist hefur lagt fram frumvarp þess efnis að afnema jafnlaunavottun. mbl.is/Hákon

Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði á Alþingi fyrr í dag að tími væri kom­inn til að af­nema lög um jafn­launa­vott­un.

Vakti hún at­hygli á mál­inu í kjöl­far fregna um kyn­bund­inn launamun á Land­spít­al­an­um, sem er stofn­un sem er jafn­launa­vottuð.

„Það sem vek­ur þó sér­staka at­hygli í þess­ari um­fjöll­un er auðvitað hið aug­ljósa, sem er það að Land­spít­al­inn er einn þeirra fjöl­mörgu stofn­ana sem greiðir fyr­ir hina al­ræmdu jafn­launa­vott­un lög­um sam­kvæmt,“ sagði Diljá.

Svarið lægi í aug­um uppi

Hún sagði það vekja upp spurn­ing­ar hvernig kyn­bund­inn launamun­ur gæti viðgeng­ist þrátt fyr­ir jafn­launa­vott­un­ina, en svarið lægi þó í aug­um uppi.

„Jafn­launa­vott­un er ekki bara kostnaðarsam­ur baggi á at­vinnu­líf­inu og op­in­ber­um stofn­un­um held­ur hrein­lega skaðvald­ur. Fyr­ir­tæki og stofn­an­ir sem hafa þessa dyggðaskreyt­ingu geta hrein­lega kom­ist upp með að mis­muna starfs­fólki sínu, enda með það upp­áskrifað að það sé allt upp á tíu hjá þeim í jafn­launa­mál­um. Þetta er al­ger hneisa.“

Enn ein ástæðan fyr­ir því að af­nema „þenn­an óskapnað“

Með lög­um um jafn­launa­vott­un var lög­fest skylda fyr­ir­tækja þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á árs­grund­velli til að öðlast jafn­launa­vott­un.

Diljá hef­ur lagt fram frum­varp um að jafn­launa­vott­un verði val­kvæð en ekki skylda og seg­ir að dæmi Land­spít­al­ans renni enn frek­ari stoðum und­ir það frum­varp.

„Þarna er kom­in enn ein ástæðan fyr­ir því að af­nema þenn­an óskapnað og ég vona svo inni­lega að enn fleiri komi á þann vagn hér í þing­inu. Það er kom­inn tími til að við ger­um al­vöru­átak hér í að létta byrðum af at­vinnu­líf­inu.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka