Ásdís Rán Gunnarsdóttir, frambjóðandi til embættis forseta Íslands, segist ekki hafa haft nein bein tengsl til stjórnmála, stofnana, hagsmunahópa eða sérstakra baráttumála. Það telur hún gefa sér mikilvægt hlutleysi og þar með styrk til að gegna embættinu.
Leiðtogahlutverk forseta Íslands er það mikilvægasta við embættið að mati Ásdísar Ránar. Segir hún að lítil þjóð megi ekki við því að ósamstaða, reiði eða vonleysi grafi um sig í þjóðfélaginu.
Morgunblaðið gefur öllum frambjóðendum tækifæri til að svara sjö spurningum og birtir svör hvers fyrir sig á mbl.is. Svörum frambjóðendanna verður síðan safnað og þau birt í Morgunblaðinu svo lesendur geti haganlega borið þau saman.
Íslendingar ganga að kjörborðinu 1. júní og kjósa sér sjöunda forseta lýðveldisins. Morgunblaðið og mbl.is fylgjast vel með og færa ykkur helstu fréttir af kosningabaráttunni.
Hér á eftir fara svör Ásdísar Ránar við spurningum mbl.is og Morgunblaðsins:
Hvað finnst þér mikilvægast við embætti forseta Íslands?
„Leiðtogahlutverk forsetans er mikilvægast að mínu mati, lítil þjóð má ekki við því að ósamstaða, reiði eða vonleysi grafi um sig í þjóðfélaginu. Forgangsverkefni forsetans þarf því að vera að efla samstöðu og jákvæðan baráttuanda meðal þjóðarinnar, hvetja til góðra verka og tala fyrir málum sem auka lífsgæði landsmanna.
Góður leiðtogi hlustar á þjóð sína og mótar leiðsögn sína af því sem samfélagið þarfnast hverju sinni.“
Hvað hefur þú helst fram að færa til embættisins umfram aðra frambjóðendur?
„Mér fellur ekki sérlega vel að bera mig saman við mína ágætu meðframbjóðendur því það er kjósendanna að dæma um ágæti okkar þegar við höfum lagt spilin á borðið.
En ef horft er til almennrar reynslu minnar og þess að ég hef ekki haft nein bein tengsl hvort sem horft er til stjórnmála, stofnana, hagsmunahópa eða sérstakra baráttumála þá held ég að þetta samanlagt gefi mér mikilvægt hlutleysi og þar með styrk til að gegna embættinu.“
Á maki forseta að hafa formlega, launaða stöðu?
„Það á að vera í höndum annarra en forsetans að taka ákvörðun um hvort svo verður eða ekki.“
Á forseti að vera virkur þátttakandi í þjóðmálaumræðu?
„Sem leiðtogi þjóðarinnar á forsetinn að vera virkur í þjóðmálaumræðu en hann tekur ekki beinan þátt eða afstöðu í umræðum á vettvangi stjórnmála eða afmarkaðra hagsmunamála. Innlegg forseta í þjóðmálaumræðu er fyrst og fremst það sem sameinar, eflir og hvetur til umbóta í samfélaginu.“
Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lögum staðfestingar: rök stjórnarandstöðu, mótmæli, ráðgjöf eða eigin dómgreind?
„Víðtæk og skýr andstaða í þjóðfélaginu, eigin dómgreind og ráðgjöf myndi vega þyngst. Að mínu mati þarf málskotsrétturinn að vera virkt úrræði ef alvarlegt vantraust skapast á milli stórs hluta þjóðarinnar og þingsins.“
Hver eru brýnustu viðfangsefni Íslendinga nú og hvað hefur forseti til þeirra mála að leggja?
„Brýnustu verkefnin eru þau sem lúta að því að verja og efla lífsgæði þjóðarinnar í mjög hraðri samfélagsþróun þar sem margt er til þess fallið að auka álag og skapa vandamál ef ekki er brugðist við tímanlega með skilvirkum hætti. Sem leiðtogi skapar forsetinn sér yfirsýn yfir þróun mála, hlustar á þjóðina og hvetur á grunni þess jafnt ráðandi öfl og almenning til viðeigandi aðgerða.
Forsetinn er einnig sá aðili sem er best í stakk búinn til að virkja samtakamátt og afl fólksins í landinu til umbóta sem eru til þess fallnar að draga úr þörf á aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Sem dæmi um það má nefna lýðheilsumál og góða umgengni um náttúru landsins.
Heilbrigða lífshætti og góða umgengni geta allir tileinkað sér og forsetinn á að hvetja og skapa stemmingu og jákvæð viðhorf til mála af því tagi. Lífsgæði, vellíðan og sátt þjóðarinnar er það sem forsetinn á að vinna að.“
Hver er hæfilegur tími í embætti fyrir forseta?
„Hæfilegur tími að mínu mati er 8 ár. Forsetaembættið mun einungis eflast ef gott rými er fyrir þjóðina að velja sér nýjan forseta og embættinu þjónar fólk með ólíkan bakgrunn, mismunandi hugsjónir, áherslur og leiðtogafærni.“