Frambjóðendur svara: Helga Þórisdóttir

Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi.
Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Þórisdóttir, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segist hvorki háð pólitískum áhrifum né hagsmunahópum. Þá segist hún hafa víðtæka þekkingu og reynslu af lögum í landinu.

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Helgu er að forseti setji sjálfan sig ekki á stall heldur þjóðina og láti hagsmuni hennar, áhyggjur, öryggi og væntingar vera sitt leiðarljós.

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eftir fara svör Helgu við spurningum mbl.is og Morgunblaðsins:

Helga er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram í …
Helga er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram í embætti for­seta Íslands í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað finnst þér mikilvægast við embætti forseta Íslands?

„Forseti á ekki að setja sjálfan sig á stall heldur þjóðina. Hann á að vera í lifandi sambandi við þjóðina og láta hagsmuni hennar, áhyggjur, öryggi og væntingar vera sitt leiðarljós.“

Hvað hefur þú helst fram að færa til embættisins umfram aðra frambjóðendur?

„Í fyrsta lagi er ég hvorki háð pólitískum áhrifum né hagsmunahópum. Í öðru lagi hef ég víðtæka þekkingu og reynslu af lögum landsins. Sem forstjóri Persónuverndar hef ég varið friðhelgi einkalífs ykkar. Ef einhver er að hugsa um forsetann sem mikilvægan öryggisventil, þá á mitt erindi ekki að vefjast fyrir neinum.

Ég hef komið fram fyrir hönd Íslands víða um heim og haldið alþjóðlegar ráðstefnur hér á landi. Ég á sæti í hinu Evrópska persónuverndarráði og hef komið því til leiðar að réttindi Íslands og annarra EES ríkja hafa styrkst í Evrópusamvinnu. Á okkar rödd er nefnilega hlustað þegar við vinnum heimavinnuna okkar vel!“

Á maki forseta að hafa formlega, launaða stöðu?

„Nei.“

Á forseti að vera virkur þátttakandi í þjóðmálaumræðu?

„Hann á að vera virkur hlustandi frekar en stýra henni. Hann hefur dagskrárvald og á að nýta það.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lögum staðfestingar: rök stjórnarandstöðu, mótmæli, ráðgjöf eða eigin dómgreind?

„Það væri blanda af þessu en undirskriftir verulega stórs hluta þjóðarinnar sem ég kalla þrjátíu til fimmtíu þúsund undirskriftir, eigin dómgreind og ráðgjöf væru mitt leiðarljós að slíkri ákvörðun.“

Hver eru brýnustu viðfangsefni Íslendinga nú og hvað hefur forseti til þeirra mála að leggja?

„Að mínu mati þarf forseti að tala fyrir eflingu íslenskrar tungu, góðri menntun allra og bættum hag aldraðra.“

Hver er hæfilegur tími í embætti fyrir forseta?

„Það er þjóðin sem ákveður tíma forseta á Bessastöðum, ekki hann sjálfur en í mínum huga eru tvö til þrjú kjörtímabil ágætis tími.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert