Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að kostnaður vegna aðgerða fyrir fyrirtæki í Grindavík, sem kynntar voru fyrr í dag, geti numið allt að þremur milljörðum króna. Hann segir að varasjóðir séu til staðar til að standa straum af útgjöldunum.
„Við erum að meta það að beinn kostnaður gæti verið einhver rúmur milljarður af stuðningslánunum og viðspyrnustyrknum. Síðan er áframhaldandi launastuðningur, húsnæðisstuðningur og annað – gætu verið á bilinu einn til tveir milljarðar. Þannig þetta geta verið allt að þrír milljarðar,“ segir Sigur Ingi í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi þar sem stuðningsaðgerðir fyrir fyrirtæki voru kynntar.
Aðgerðirnar fela í sér stuðningslán með ríkisábyrgð, viðspyrnustyrki, áframhaldandi launastuðning og stuðning við hráefnis- og afurðatryggingar.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, nefndi það í samtali við mbl.is að fyrirtækin í Grindavík hefðu kallað eftir því að ríkið myndi kaupa upp atvinnuhúsnæði. Stjórnvöld hafa nú ákveðið að gera það ekki.
Sigurður segir nokkrar ástæður liggja þar að baki.
„Í þeim tilvikum sem að við værum að kaupa upp skuldsett atvinnuhúsnæði þá værum við fyrst og fremst að styðja við fjármálafyrirtæki, sem okkur finnst ekki endilega rétt að nota skattfé almennings til,“ segir Sigurður.
Hann segir að fyrirtækin séu mismunandi og að þau eigi ekki öll atvinnuhúsnæði. Ekki sé hægt að mismuna fyrirtækjum í stuðningi.
„Þannig við erum hér fyrst og fremst að horfa á stuðning og súrefnisgjöf inn í rekstur fyrirtækjanna með þessum viðspyrnustuðningi,“ segir Sigurður.
Viðspyrnustyrkurinn felur meðal annars í sér aðgerðir á borð við að fyrirtæki fái að hámarki 600 þúsund krónur á mánuði fyrir allt að 10 stöðugildi, eða sex milljónir króna.
Fyrirtækjunum verður gert kleift að taka lán hjá lánastofnunum með ábyrgð ríkisins uppfylli þau tiltekin skilyrði. Stefnt er að því að lánveitingar hefjist í haust.