Lengsta lota kvikusöfnunar frá upphafi atburðanna

Eldgosinu við Sundhnúkagíga lauk 9. maí, sumardaginn fyrsta.
Eldgosinu við Sundhnúkagíga lauk 9. maí, sumardaginn fyrsta. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi hefur ekki verið meira frá því fyrir 10. nóvember. Um 16 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars, að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Þar segir að huga þurfi að fleiri sviðsmyndum ef kvikusöfnun haldi áfram án kvikuhlaups eða eldgoss. Kvikusöfnun undir Svartsengi er áfram stöðug.

Auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga og er talið líklegast að það gjósi á Sundhnúkagígaröðinni. Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur.

Uppfært hættumat Veðurstofu Íslands.
Uppfært hættumat Veðurstofu Íslands. Kort/Veðurstofa Íslands

Uppfært hættumatskort

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat sem gildir frá því klukkan 15 í dag til 21. maí.

Hætta vegna gasmengunar á svæði 7 hefur verið hækkuð í tengslum við auknar líkur á nýju eldgosi á svæði 3.

„Vegna breytingarinnar er heildarhætta á svæðinu nú metin töluverð (appelsínugul) en var áður nokkur (gul). Hætta vegna gasmengunar á öllum öðrum svæðum er óbreytt frá síðustu viku og metin töluverð. Vegna aukinnar smáskjálftavirkni innan svæðis 4 hefur hætta vegna jarðskjálftavirkni verið hækkuð þar,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert