Ný uppfærsla á appi sem kennir íslensku

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Jón Gunnar Þórðarson, …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ný uppfærsla af smáforritinu Bara tala hefur litið dagsins ljós í kjölfar samnings sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, gerði við fyrirtækið í byrjun árs.

Bara tala er smáforrit sem nýtist öllum sem vilja læra íslensku. Forritið er nokkurs konar stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, þar sem íslenskan er kennd í gegnum leik.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að samningurinn hafi kveðið á um að aðgangur að starfstengdum orðalistum innan heilbrigðis-, félags- og umönnunargreina yrði ókeypis til fjögurra ára fyrir þau sem stunda nám, starfa eða hyggjast starfa í heilbrigðis- og umönnunargreinum á Íslandi.

Inniheldur þýðingarforrit

Nýja uppfærslan inniheldur meðal annars gagnvirka, starfstengda orðalista og persónulega þýðingarvél á fimm tungumálum: ensku, spænsku, litháísku, úkraínsku og pólsku. Notendur geta nálgast stuðningsefni til að læra íslensku og æft sérsniðinn, starfstengdan orðaforða, út frá tali, hljóði og mynd, auk þess að sjá framgang sinn í rauntíma.

Uppfærslan inniheldur þýðingarforrit sem getur umbreytt talmáli úr fyrrnefndum tungumálum yfir á íslensku. Notendur geta talað á sínu móðurmáli, smáforritið þýðir og sérstakur talgervill les upp setninguna á íslensku.

„Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að auka veg og vanda íslenskunnar með ýmsum aðgerðum og stórauka aðgengi fjölbreyttra hópa á öllum aldri og á öllum skólastigum að því að læra íslensku sem annað mál,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert