Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi sat fyrir svörum í nýjasta þætti Spursmála undir stjórn Stefáns Einars Stefánssonar sem sýndur var hér á mbl.is klukkan 14.
Upptöku af þættinum má nálgast í spilaranum hér að neðan og er hún öllum aðgengileg. Einnig má hlusta og horfa á Spursmál á Spotify og Youtube.
Líkt og gert hefur verið í fyrri þáttum voru krefjandi spurningar lagðar fyrir Höllu. Að henni var beint spurningum sem snúa að skyldum forsetans og því sem kemur í hlutskipti hans út frá bakgrunni hennar sem forstjóri alþjóðlegu sjálfseignarstofnunarinnar B Team.
Fyrirtækið B Team er vettvangur stjórnmála-, viðskipta- og áhrifafólks víðs vegar um heim með höfuðstöðvar í New York. Stofnandi B Team, Richard Branson, hefur verið umdeildur í gegnum tíðina og hlotið gagnrýni fyrir tvímæli í stefnu sinni um loftslagsmál. Þá hefur hann einnig verið sakaður um skattsvik.
Hvort sem viðskiptahættir og lífstíll Bransons geti haft áhrif á fyrirtækið sem Halla situr í forsvari fyrir eða ekki þótti eðlilegt að þýfga hana um nánari svör á grundvelli baráttu hennar til embættis forseta Íslands.
Síðustu vikur hafa frambjóðendur sem mælst hafa með yfir 10% fylgi í skoðanakönnunum komið í Spursmál og rætt um framboð sín, bakgrunn og afstöðu til forsetaembættisins. Viðtölin hafa vakið mikla athygli fyrir hispurslausar umræður umsjónarmanns þáttarins, Stefáns Einars Stefánssonar, við frambjóðendur.
Sviptingar hafa orðið á fylgi frambjóðenda undanfarna daga og virðist mikil hreyfing vera þar á. Hefur fylgisaukning Höllu komið mörgum spánskt fyrir sjónir en barátta hennar virtist fara fremur hægt af stað í byrjun.
Hefur hún aukið fylgi sitt umtalsvert undanfarið samkvæmt síðustu skoðanakönnunum úr 5,1% í 12,5%. Má því segja að nú sé Halla farin að sækja í sig veðrið og barátta hennar loks hafin fyrir alvöru.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og sr. Grétar Halldór Gunnarsson prestur í Kópavogskirkju mættu í settið til að fara yfir þær fréttir sem komust í hámæli í vikunni sem er að líða.
Mikið fór fyrir kjöri á nýjum biskup í vikunni, umræður um fóstureyðingar áttu sér einnig stað og þá bar hátt á góma fólks hversu lítið fór fyrir fréttum af Eurovision þetta árið, enda árangur Íslands til marks um það.
Fylgstu með fræðandi og fjörugri umræðu í Spursmálum alla föstudaga á mbl.is klukkan 14.