Veita fyrirtækjum brú yfir óvissutímabil

Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að það séu fjölmargir fundir að baki með grindvískum fyrirtækjum við undirbúninginn á stuðningsaðgerðum ríkisins fyrir grindvísk fyrirtæki sem voru kynntar í dag.

Aðgerðirnar fela meðal ann­ars í sér stuðningslán með rík­is­ábyrgð, viðspyrnustyrki, áfram­hald­andi launastuðning og stuðning við hrá­efn­is- og afurðatrygg­ing­ar.

„Það verður að segjast eins og er að þau [fyrirtækin] eru mörg í mjög þröngri og erfiðri stöðu. Við erum að reyna að bregðast við af sanngirni og raunsæi, við verðum á sama tíma að viðurkenna að við getum ekki orðið við sérhverri ósk,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is að blaðamannafundi loknum.

Ríkið kaupir ekki upp atvinnuhúsnæði

Mörg fyrirtæki í Grindavík höfðu óskað þess að ríkið myndi kaupa upp atvinnuhúsnæði, eins og var gert með íbúðarhúsnæði en Bjarni segir að ríkið geti ekki fallist á það.

„Með stuðningslánunum erum við að reyna koma til móts við öll fyrirtæki, óháð því hvort að þau eiga fasteign og erum nú að veita ákveðna brú yfir þetta óvissutímabil. Auðvitað með rekstrarstyrknum líka, sem við köllum nú viðspyrnustyrk.“

Allt að 6 milljónir á mánuði

Fyr­ir­tækj­un­um verður gert kleift að taka lán hjá lána­stofn­un­um með ábyrgð rík­is­ins upp­fylli þau til­tek­in skil­yrði. Stefnt er að því að lán­veit­ing­ar hefj­ist í haust.

„Við vonumst til þess að aðgerðir sem kalli á lagabreytingar geti komið fyrir þingið strax í júní. Við erum samt að horfa til þess að stuðningslánafrumvarpið kunni mögulega að taka lengri tíma og kæmi fram í haust, þegar launastuðningurinn hefur runnið sitt skeið,“ segir Bjarni.

Viðspyrnustyrkur framlengdur

Viðspyrnustyrk­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður fram­lengd­ur til lok árs. Viðspyrnustyrk­ur fel­ur í sér tíma­bund­inn rekstr­arstuðning og er stuðning­ur­inn ætlaður til að fyr­ir­tæki geti aðlagað starf­semi sína að breytt­um aðstæðum. Þá geti fyr­ir­tæk­in hafið starf­semi sína á ný í Grinda­vík þegar aðstæður leyfa.

Viðspyrnustyrkurinn felur meðal annars í sér aðgerðir á borð við það að fyrirtæki fái að hámarki 600 þúsund krónur á mánuði fyrir allt að 10 stöðugildi. Jafngildir það styrk fyrir allt að sex milljónum króna á mánuði að hámarki. Sá stuðningur verður veittur frá júlí til desember.

Tekjufallsmörk verða 20%, voru áður 40%, en fullur styrkur er veittur ef tekjufall er yfir 50%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka