Birta Hannesdóttir
Þormar Ómarsson, annar eigenda Papa's Pizza í Grindavík, vill sjá að fólki sé hleypt inn í bæinn aftur sem fyrst. Það sé eina leiðin til að starfsemin í bænum geti orðið eðlileg og þjónustufyrirtækin lifni við á ný.
„Það er ágætt að gera í hádeginu og á kvöldin, en okkur vantar túristana yfir daginn,“ segir Þormar í samtali við mbl.is.
Papa's Pizza var opnuð aftur 1. maí og segir Þormar starfsemina hafa gengið vel, en það vanti alla ferðamennina í bæinn. Hann telur þá lykilatriði fyrir uppbyggingu Grindavíkur.
Þormar er Grindvíkingur og er búsettur í bænum vegna rekstursins, en fjölskylda hans er í Reykjavík.
Hann kveðst ekki viss um að fjölskyldan muni snúa aftur til Grindavíkur, það verður að koma í ljós með haustinu.
„Við eigum syni hérna sem eiga íbúðir, og við erum búin að leigja þær allar út. Það eru bara útlendingar sem vinna í Keflavík og Matorku og þeir kippa sér ekkert upp við þetta. Ég er alveg bjartsýnn á að það verði fólk hérna, það verður bara ekki sama fólkið.“