Frambjóðendur svara: Steinunn Ólína

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir forsetaframbjóðandi.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir forsetaframbjóðandi. Ljósmynd/Aðsend

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segist ein forsetaframbjóðenda lofa því að þjóðin muni sjálf ráða örlögum auðlinda sinna og náttúruauðæfa með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Steinunnar Ólínu er að í embættinu sitji manneskja sem deilir kjörum með almenningi og hafi því sömu hagsmuna og landsmenn að gæta.

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eftir fara svör Steinunnar Ólínu við spurningum mbl.is og Morgunblaðsins:

Steinunn Ólína er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram …
Steinunn Ólína er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram í embætti for­seta Íslands í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. Ljósmynd/Aðsend

Hvað finnst þér mikilvægast við embætti forseta Íslands?

„Forseti Íslands er eina manneskjan sem kosin er beint af þjóðinni og er hennar síðasta vígi ef aðrir valdhafar bregðast. Mikilvægast er að í embættinu sitji manneskja sem deilir kjörum með almenningi og hafi því sömu hagsmuna og landsmenn að gæta.

Þjóðin verður að treysta sínum forseta til að nýta málsskotsréttinn ef vegið er að landi og þjóð með ólögum á alþingi. Forseti þarf að auki að vera góður og áreiðanlegur vinur sem leggur sjálfan sig til hliðar til að ganga til þjónustu við landsmenn í blíðu og stríðu.“

Hvað hefur þú helst fram að færa til embættisins umfram aðra frambjóðendur?

„Ég hef ein forsetaframbjóðenda lofað því að þjóðin ráði sjálf örlögum auðlinda sinna og náttúruauðæfa með þjóðaratkvæðagreiðslum.“

Á maki forseta að hafa formlega, launaða stöðu?

„Nei.“

Á forseti að vera virkur þátttakandi í þjóðmálaumræðu?

„Nei. Ef þingið er að rækja skyldur sínar við kjósendur og efna sín kosningaloforð, þarf forseti ekki að blanda sér í þjóðmálaumræðu með dagskrárvaldi sínu.

Forseti fer sparlega með dagskrárvaldið og nýtir það aldrei eftir geðþótta heldur aðeins af brýnni nauðsyn ef stór hagsmunamál sem hafa áhrif til frambúðar fyrir land og þjóð eru undir.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lögum staðfestingar: rök stjórnarandstöðu, mótmæli, ráðgjöf eða eigin dómgreind?

„Dómgreind forseta hlýtur að ráða þar mestu því með dómgreind sinni hlustar forseti á allt sem týnt er til í spurningunni.

Vilji þjóðarinnar vegur þungt en það gæti gerst að forseti teldi þjóðina ekki nægilega upplýsta um eitthvert þjóðarhagsmunamál sem kæmi til umræðu í þinginu og þá getur forseti með dagskrárvaldi sínu eða málskotsrétti kallað eftir upplýstri umræðu meðal bæði þings og þjóðar svo öllum megi ljóst vera hvað um er rætt við lagasetningu.“

Hver eru brýnustu viðfangsefni Íslendinga nú og hvað hefur forseti til þeirra mála að leggja?

„Núna er brýnast að byggja upp traust á milli þings og þjóðar. Nú um stundir virðast stjórnvöld hugsa aðeins um eitt: Hvernig getum við nýtt okkur Ísland? Það skortir að ráðamenn hugsi: Hvað getum við gert fyrir Ísland og þar með þjóðina?

Þess vegna er mikilvægast að forseti fylgist grannt með störfum þingsins og þjóðin geti treyst honum til að nýta dagskrárvald sitt og málskotsréttinn.“

Hver er hæfilegur tími í embætti fyrir forseta?

„Átta til tólf ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert