Hámarkshraði verði lækkaður á Suðurlandsbraut

Íbúaráð hverfa nálægt Suðurlandsbraut hafa hvatt til þess að hámarkshraði …
Íbúaráð hverfa nálægt Suðurlandsbraut hafa hvatt til þess að hámarkshraði þar verði lækkaður úr 60 km/klst. niður í 40 km/klst. Ljósmynd/Colourbox

Íbúaráð hverfa nálægt Suðurlandsbraut hafa hvatt til þess að hámarkshraði þar verði lækkaður úr 60 km/klst. niður í 40 km/klst. Samgöngustjóri Reykjavíkur er hlynntur þessari breytingu.

Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis setti tillöguna fram upphaflega í september 2023.

Í greinargerð með tillögunni kom fram að Suðurlandsbraut væri mikill ferðatálmi milli hverfisins og Laugardalsins þangað sem íbúar hverfisins sækja fjölbreytta þjónustu, tómstundir og afþreyingu. Nýleg umferðarslys/bílveltur í götunni dragi fram með skýrum hætti það skerta öryggi sem óvarðir vegfarendur standa frammi fyrir í nágrenni við götuna og þegar hún er þveruð, sagði m.a. í greinargerðinni.

Íbúaráðið tók undir áhyggjur íbúa hverfisins af hraðakstri á Suðurlandsbraut og lagði mikla áherslu á að öryggi óvarðra vegfarenda við götuna yrði bætt.

Áætlun um hámarkshraða

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur þann 20. mars síðastliðinn var tillögu íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis vísað til umsagnar íbúaráðs Laugardals. Í umsögn þess ráðs er tekið undir þá skoðun að breyta þurfi tafarlaust hámarkshraða við Suðurlandsbraut úr 60 km/klst. niður í 40 km/klst. í samræmi við hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur sem er verið að innleiða.

„Ef þessi lækkun hámarkshraða er talin hafa áhrif á akstur neyðarbíla þá hvetjum við eindregið til þess að klára útfærslu forgangsakreinar Borgarlínu á Suðurlandsbraut. Lækkun hámarkshraða þarf að framkvæma án þess að það dragi úr öryggi eða aðgengi neyðarbíla.“

Einnig var leitað umsagnar samgöngustjóra Reykjavíkur. Í umsögn hans kemur fram að margir gangandi vegfarendur eigi leið yfir Suðurlandsbraut. Við hana liggi Laugardalurinn, samfelldur göngu- og hjólastígur milli Elliðaárdals og miðborgarinnar, og ýmis þjónusta. Út frá sjónarmiðum umferðaröryggis sé mikilvægast að draga úr hraða bílaumferðar og almennt bæta aðstæður og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda við gatnamót og aðrar gönguþveranir.

Samgöngustjórinn bendir á að nú þegar hafi hámarkshraði verið lækkaður tímabundið við gönguljós móts við Suðurlandsbraut 30, í tengslum við tímabundið skólahúsnæði í Ármúla. Áhrif þeirrar lækkunar séu þó óljós. „Það væri því í samræmi við hámarkshraðaáætlun og umferðaröryggisáætlun að lækka hámarkshraða Suðurlandsbrautar í 40 km/klst.,“ segir samgöngustjórinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert