Niðurrif Íslandsbankahússins á Kirkjusandi hefur gengið vel.
Áætlun verktaka miðar að því að fljótlega í haust verði húsið horfið af yfirborði jarðar. En miðað við gang mála standa vonir til að niðurrifinu ljúki seinnipart sumars.
Byrjað var að rífa innan úr húsinu í desember í fyrra og síðan var hafist handa við að rífa glugga og karma. Nú eru efstu hæðirnar horfnar. Verktakinn mun síðan halda áfram, skref fyrir skref. Þetta er væntanlega eitt umfangsmesta niðurrif húss á landinu.
Byggingin stóra á Kirkjusandi var upphaflega frystihús sem reist var á árunum 1955-1962 af hlutafélögunum Júpíter og Mars.
Frystihúsið var síðar innréttað sem skrifstofuhús fyrir aðalstöðvar Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS).
Síðast voru þarna aðalstöðvar Íslandsbanka til ársins 2017. Húsið var þá dæmt ónýtt vegna myglu og Íslandsbanki flutti í Kópavog.
Þegar lokið verður við að rífa húsið, fjarlægja leifar þess og laga lóðina hefst þar umfangsmikil uppbygging fjölbýlishúsa. Heimilt er að byggja allt að 225 íbúðir á lóðinni við Kirkjusand. Leyfilegt heildarbyggingarmagn verður 51.000 fermetrar.
Íslandsbankahúsið er rétt tæpir 7.000 fermetrar. Eigandinn, Íslandsjóðir, samdi við félagið A.B.L. tak ehf. um niðurrifið en það varð hlutskarpast í opnu útboði.
Morgunblaðið fékk þær upplýsingar hjá Íslandssjóðum að því efni sem til fellur við niðurrifið væri fargað hjá Sorpu. Húsið var svo illa farið að endurnýtingarhlutfall úrgangs var metið 0%.
Verktaka var þó heimilt að endurnýta efni að eigin vild en óheimilt er að geyma það á verkstað.