Segir kirkjuna hafa brugðist hinsegin samfélaginu

Guðrún Karls Helgudóttir verðandi biskup
Guðrún Karls Helgudóttir verðandi biskup mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Karls Helgudóttir, sem verður næsti biskup þjóðarinnar, er í ítarlegu viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar er hún spurð um viðhorf kirkjunnar til samkynhneigðra, sem einkenndist um tíma af höfnun.

„Kirkjan brást. Þar af leiðandi stendur hún í skuld við hinsegin samfélagið. Kirkjan átti strax að opna faðm sinn fyrir fjölbreytileikanum. Meirihluti presta stóð samt alltaf með hinsegin samfélaginu, það er mikilvægt að því sé haldið til haga, þótt kirkjan sjálf gerði það ekki formlega fyrr en of seint,“ segir Guðrún.

Önnur dóttir Guðrúnar er trans. „Það kom okkur mjög á óvart þegar hún sagði okkur frá því en það var haustið eftir að hún fermdist,“ segir Guðrún. „Við veljum ekki hvaða verkefni við fáum sem foreldrar og verkefni okkar er fyrst og fremst að elska, styðja og standa með börnunum okkar. Ég hef alltaf verið með opinn huga fyrir því að við mannfólkið erum alls konar en þetta varð þó til þess að ég finn enn sterkar hversu miklu máli það skiptir að við tökum öllum manneskjum eins og þær eru og berum virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Ég held að ný kynslóð sé að kenna okkur ýmislegt þegar kemur að þessu.“

Ítarlega er rætt við Guðrúnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert