Frambjóðendur svara: Ástþór Magnússon

Ástþór Magnússon, frambjóðandi til embættis forseta.
Ástþór Magnússon, frambjóðandi til embættis forseta. mbl.is/Óttar

Ástþór Magnússon, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segir þjóðina þurfa forseta sem sameini hugsjón, heiðarleika, þolinmæði og þrautseigju. Segist hann hafa sýnt og sannað að hann hafi þann styrk sem forsetinn þurfi til að krefja stjórnvöld um breytingar með því að halda ótrauður áfram eftir 28 ár.

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Ástþórs er að forsetinn sé fulltrúi þjóðarinnar, sameiningartákn, umboðsmaður lýðsins og eftirlitsaðili fyrir virku lýðræði. Hann standi vörð um hagsmuni þjóðarinnar á Bessastöðum í þverpólitísku embætti. 

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eft­ir fara svör Ástþórs við spurn­ing­um mbl.is og Morg­un­blaðsins:

Ástþór er einn þeirra tólf sem bjóða sig fram í …
Ástþór er einn þeirra tólf sem bjóða sig fram í embætti for­seta Íslands í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. mbl.is/Óttar

Hvað finnst þér mik­il­væg­ast við embætti for­seta Íslands?

„Forsetinn er fulltrúi þjóðarinnar og á að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar á Bessastöðum. Forsetaembættið er þverpólitískt embætti. Sameiningartákn þjóðarinnar, umboðsmaður lýðsins og eftirlitsaðili fyrir virku lýðræði.

Til að þess þarf forsetinn að vera með öllu ótengdur stjórnmálaflokkum og hafa engin önnur hagsmunatengsl sem geta haft áhrif á störf hans. Forsetinn er öryggisventill um leið og hann leiðir fólk saman til að vinna góðum málum brautargengi fyrir þjóðina.“

Hvað hef­ur þú helst fram að færa til embætt­is­ins um­fram aðra fram­bjóðend­ur?

„Þjóðin þarf forseta sem sameinar hugsjón, heiðarleika, þolinmæði og þrautseigju. Með því að halda ótrauður áfram eftir 28 ár, hef ég sýnt og sannað að ég hef til að bera þann styrk sem forsetinn þarf til að krefja stjórnvöld um breytingar.

Að hverfa frá hernaði til friðarstefnu, leiða mál til lykta og halda í skefjum þeim öflum sem vilja ráðskast með vald þings, stjórnsýslu eða fjölmiðla í sérhagsmunagæslu á kostnað þjóðarinnar.“

Á maki for­seta að hafa form­lega, launaða stöðu?

„Nei.“

Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í þjóðmá­laum­ræðu?

„Nei, ekki nema í undantekningartilvikum ef sérstakt ástand skapast í þjóðfélaginu.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lög­um staðfest­ing­ar: rök stjórn­ar­and­stöðu, mót­mæli, ráðgjöf eða eig­in dómgreind?

„Þjóðaratkvæðagreiðslur um helstu deilumál er öflug leið til að brúa gjár á milli þings og þjóðar og koma í veg fyrir að þær myndist. Ég vil að þjóðaratkvæðagreiðslur verði eðlilegur hlutur í lýðræðisþróun framtíðarinnar.

Lykillinn að raunverulegum lýðræðisumbótum liggur hjá fjölmiðlum sem í dag ráðskast með lýðræðið fyrir sérhagsmuni eigenda sinna eða valdaelítuna.

Forsetinn á að tala fyrir heilbrigðara lýðræði og vandaðri þjóðfélagsumræðu.“

Hver eru brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú og hvað hef­ur for­seti til þeirra mála að leggja?

„Að forseti Íslands fái nýtt hlutverk sem alþjóðlegur talsmaður friðar og mannréttinda. Það tengist þeirri hugmynd að á Íslandi rísi friðarháskóli og þróunarmiðstöð lýðræðis, friðar og mannréttinda. Friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna verði boðin aðstaða á Keflavíkurflugvelli og forsetaembættið vinni markvisst að því að fá til Íslands tengda starfsemi.

Fjölmargir fræðimenn á sviði friðarmála eru mér sammála að Ísland gæti orðið leiðandi til friðar og lýðræðisþróunar í heiminum. Svari Íslendingar kallinu mun hér rísa nýr og jákvæður atvinnuvegur sem gæti fært þúsundum Íslendinga blómleg störf í framtíðinni.“

Hver er hæfi­leg­ur tími í embætti fyr­ir for­seta?

„Mér finnst það ætti að setja reglur um hámark tvö kjörtímabil. Sjálfur sækist ég eftir einu kjörtímabili til að vinna friðarmálunum brautargengi og vonandi getur síðan annar tekið við kyndlinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert