„Okkur mun ekki bregða“

Hjálmar segir íbúa meðvitaða um stöðuna og reiðubúna.
Hjálmar segir íbúa meðvitaða um stöðuna og reiðubúna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður, formaður bæjarráðs Grindavíkur og íbúi í Grindavík, segir íbúa meðvitaða um stöðuna og reiðubúna að rýma bæinn komi til þess.

Hjálmar er einn þeirra íbúa sem heldur enn til í bænum. Hann segir fátt annað hægt í stöðunni en að bíða og sjá til hvernig málin þróast. 

„Okkur mun ekki bregða ef eitthvað gerist, það eru bara allir að bíða.“ 

Gist í um þrjátíu heimilum

„Það er bara alveg ágætt, það eru einhverjir skjálftar þarna við Sundhnúkagígaröðina, en þeir finnast ekki hér í Grindavík,“ segir Hjálmar og heldur áfram:  

„Við erum bara að bíða þar til að eitthvað rætist úr þessum eldgosaspám.“

Hjálmar telur að það sé gist á um þrjátíu heimilum um þessar mundir.

Eitthva líf sé í starfsemi bæjarins og nefnir veitingastaði tvo sem hafa opnað dyr sínar, vinnslu í fiskvinnsluhúsinu og bakaríið sem sé af og til opið fyrir hádegi.

„Það er smá líf í þessu á virkum dögum, en fátt núna um þessa helgi, enda stór ferðahelgi.“

Ekki hægt að bíða endalaust

Eru töskurnar tilbúnar?

„Nei, nei, en við erum alveg meðvituð um ástandið og vitum að við gætum þurft að rýma út af einhverju. Það eru allir sem eru hérna meðvitaðir um stöðuna og ekkert óvanalegt fyrir þennan hóp sem er hérna.“

Þér dettur ekki til hugar að vera annars staðar (en í Grindavík) á þessum tímum?

„Já, það er engin ástæða til að vera að fara eitthvað annað á meðan þetta er svona. Þetta er mikið óvissuástand og við gerum okkur grein fyrir því en okkur líður vel hérna og við teljum okkur örugg í þessari stöðu.“

„Fólk er svolítið bara að bíða og sjá til og þannig verður það áfram þar til að við fáum fréttir úr jörðinni. Það er auðvitað ekki hægt að bíða endalaust og lífið heldur áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert