Kjörseðlar kláruðust: Aðsókn meiri en áætlað var

Ræðismaðurinn vanmat fjölda kjósenda.
Ræðismaðurinn vanmat fjölda kjósenda. AFP

Nokkrir Íslendingar fóru í fýluferð á kjörstað á Kanaríeyjum vegna skorts á kjörseðlum.

Þurftu einhverjir að yfirgefa kjörstað án þess að hafa greitt forsetaframbjóðanda sínum atkvæði. 

Boðið var upp á sérstaka kosningatíma í suðurhluta eyjunnar Gran Canaria og í höfuðborg Tenerife, en aðsókn í kosningatímann í suðurhluta eyjunnar reyndist meiri en fjöldi tiltækra kjörseðla, segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

Viðbótarseðlar væntanlegir 

Í svari utanríkisráðuneytisins segir að ræðismaður Íslands á Kanaríeyjum áætli hverju sinni hve marga kjörseðla þurfi miðað við fjölda Íslendinga á svæðinu og fjölda kjósenda í fyrri kosningum. 

Ræðismaðurinn virðist hafa vanmetið fjölda þeirra sem vildu greiða atkvæði í kosningunum og fyrir vikið kláruðust kjörseðlarnir í kosningatímanum. 

Viðstaddir voru beðnir velvirðingar og boðið að mæta aftur á miðvikudaginn. Viðbótarkjörseðlar eru væntanlegir til eyjunnar á morgun. 

Svar utanríkisráðuneytisins í heild sinni: 

„Í aðdraganda kosninga hverju sinni leggja ræðismenn Íslands mat á hversu margra kjörseðla er þörf, sem byggir á fjölda Íslendinga á svæðinu sem og fjölda kjósenda í fyrri kosningum. Ræðismaður Íslands á Kanaríeyjum er á eyjunni Gran Canaria, en almennt þurfa Íslendingar á eyjunum að fara á skrifstofu hans til að kjósa.

Að þessu sinni var ákveðið að auglýsa sérstakan kosningatíma á suðurhluta eyjunnar sem og í höfuðborg Tenerife til að þjónusta íslenska ríkisborgara á svæðunum vegna forsetakosninganna á Íslandi. Aðsóknin á suðurhluta Gran Canaria á föstudaginn reyndist meiri en ræðismaðurinn hafði áætlað og því kláruðust kjörseðlarnir á auglýstum kosningafundi á Tenerife í dag. Viðstaddir voru beðnir velvirðingar og boðið að kjósa á suðurhluta Gran Canaria á miðvikudaginn.  Að beiðni ræðismanns voru viðbótarkjörseðlar sendir ytra á föstudaginn og eru þeir væntanlegir til Kanaríeyja á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert