Myndum finna fyrir fjarveru Íslands úr NATO

Frá kafbátaleitaræfingu NATO. Lega Íslands skiptir NATO öllu máli við …
Frá kafbátaleitaræfingu NATO. Lega Íslands skiptir NATO öllu máli við að tryggja varnir Atlantshafsins. mbl.is/Árni Sæberg

Doug G. Perry, undiraðmíráll og yfirmaður flotastöðvar NATO í Norfolk, segir að Ísland sé algjört lykilríki innan Atlantshafsbandalagsins. Perry var staddur hér á landi í síðustu viku til þess að kynna aðstæður á Íslandi, en hann tók við hlutverki sínu í janúar síðastliðnum.

Aðspurður um hvort bandalagið myndi fyrir því ef Ísland stæði utan þess segir Perry að það yrði svo sannarlega raunin.

„Ísland er lykilríki, algjörlega nauðsynlegt aðildarríki að NATO,“ segir Perry. „Landafræðin skiptir máli.“

„Ísland sem eitt af norrænu ríkjunum tekur þátt í varnarsamstarfi Norðurlandanna, og með staðsetningu sinni hér í hliðinu á milli Grænlands, Íslands, Bretlands og Noregs, með því að vera í NATO geta öll bandalagsríkin sýnt afl sitt, haldið úti birgðalínum sínum og haldið bæði Atlantshafinu og norðurslóðum öruggum,“ segir Perry.

Doug G. Perry, varaaðmíráll í Bandaríkjaflota.
Doug G. Perry, varaaðmíráll í Bandaríkjaflota. Ljósmynd/JFC Norfolk

Hann bendir á að með veru Íslands í NATO geti bandaríski sjóherinn stutt við aðgerðir sínar á friðartímum til þess að sýna fram á að Evrópa og Atlantshafið séu undir vernd bandalagsins. Þá skipti ekki máli að hér á landi sé enginn innlendur her til þess að sinna vörnum.

„Þannig að mati mínu, að mati Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins er Ísland lykilríki út af staðsetningu sinni. Við lítum ekki á skipulag Íslands í varnarmálum sem vandamál eða eitthvað sem dragi úr mikilvægi Íslands gagnvart bandalaginu.“

Perry segir að lokum að bandalagið sé að endurnýja og fínstilla varnaráætlanir sínar eftir svæðum, og að Ísland skipti öllu máli við að tryggja öryggi norðurslóða og um leið Atlantshafið.

Nánar er rætt við Perry í Morgunblaðinu laugardaginn 18. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert