Deild faggreinakennslu við menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur slitið samstarfi sínu við ísraelska háskóla og hyggst ekki efna til nýs samstarfs fyrr en landið hættir stríðsrekstri sínum á Gasaströndinni.
Stjórn deildarinnar ákvað þetta á síðasta fundi sínum sem haldinn var þriðjudaginn 14. maí. Íris Ellenberger, dósent í samfélagsgreinum, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en hún lagði fram tillöguna í samvinnu við Ingólf Gíslason aðjúnkt.
Hún segir tillöguna vera framhald af samstöðuyfirlýsingu sem rúmlega 300 starfsmenn HÍ undirrituðu í haust.
„Við erum að aðgerðarbinda þá yfirlýsingu [frá því í nóvember] og lýsa því yfir á beinan hátt að við í deildinni, eins og starfsfólk í mörgum öðrum háskólum, munum slíta samstarfi við ísraelska háksóla og aðrar menntastofnanir á háskólastigi, ef að þannig er fyrir, og ekki stofna til nýs samstarfs fyrr en að Ísrael lætur af árásum sínum gagnvart Palestínu,“ segir Íris, spurð út í tillöguna.
En getur deildin tekið slíka ákvörðun? Íris segir já.
Hún vísar til orða rektors, sem mun hafa sagt að skólinn muni sjálfur ekki slíta samstarfi við ísraelska háksóla en deildum og starfsfólki sé sjálfum heimilt að taka slík skref. Það sé jafningjastjórnun í deildunum.
Íris ítrekar þá að hreyfingin sé alþjóðleg. „Hver háskólinn af fætur öðrum [...] er að taka þátt í sniðgöngu á menntastofnunum í Ísrael, vegna þess að þær eru að taka þátt í þjóðarmorði,“ bætir Íris við. Hún segir að góður stuðningur hafi verið á bak við tillöguna innan deildarinnar.
„Það var enginn sem var hart á móti þessu. Sumir lýstu yfir efasemdum og sumir vildu ræða ákveðin atriði en á heildina litið var nokkuð góður meirihlutastuðningur.“
Deildin er sú fyrsta í HÍ til að taka ákvörðun um að slíta samstarfi sínu við ísraelska háskóla. Íris kveðst samt heyra frá starfsfólki annarra deilda að þær íhugi að taka sama skref. En það væri líklegast ekki fyrr en í haust, þar sem sumarfrí kemur von bráðar og margar deildir hafa þegar lokið síðasta fundi sínum.