Guðni hyggst senda samúðarkveðjur

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hyggst senda Írönum samúðarkveðjur.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hyggst senda Írönum samúðarkveðjur. mbl.is/Eyþór

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hyggst senda Írönum samúðarkveðjur vegna andláts Ebra­him Raisi, for­seta landsins og Hossein Amira­bdolla­hi­an, ut­an­rík­is­ráðherra Írans sem létu lífið í þyrluslysi um helgina. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari skrifstofu forseta Íslands við fyrirspurn mbl.is. Æðsti klerk­ur­ Írans, Ali Khameini, hef­ur lýst yfir fimm daga þjóðarsorg vegna dauða Raisi.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hyggst Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra ekki senda Írönum samúðarkveðjur þrátt fyrir að starfsbróðir hennar, auk forseta landsins, hafi látið lífið í slysinu. Hún benti aftur á móti á að slíkt félli oft í skaut forseta eða forsætisráðherra. 

Er það í samræmi við svar skrifstofu forseta Íslands þar sem segir að Guðni muni senda samúðarkveðjur fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, í samræmi við alþjóðavenju og hefð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert