Íslendingur var um borð í farþegaþotu Singapore Airlines þar sem einn lét lífið sökum ókyrrðar í dag. 53 farþegar eru slasaðir eftir atvikið og sjö eru taldir í lífshættu.
BBC greinir frá þessu og hefur eftir yfirlýsingu flugfélagsins, þar sem upplýst er um þjóðerni allra farþega.
Um borð voru 211 farþegar. Þar af voru 56 farþegar frá Ástralíu, 47 farþegar frá Bretlandi og 41 frá Singapúr.
Flugvélin var á leið frá Lundúnum til Singapúr. Einn Breti á áttræðisaldri lést, líklega af völdum hjartaáfalls.
Uppfært klukkan 16.58: Málið er komið á borð borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Það staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is.