Líta núna einnig til jaðra kvikugangsins

Starfsfólk HS Orku mætti ekki til starfsstöðvarinnar í Svartsengi í …
Starfsfólk HS Orku mætti ekki til starfsstöðvarinnar í Svartsengi í morgun vegna mælinga sem sýndu breytingu á þrýstingi. Slíkt hefur áður verið fyrirboði eldgoss. Veðurstofan segir hins vegar að mælingarnar tengist ekki kvikuhlaupi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástæða þrýstingsbreytingarinnar sem átti sér stað í borholu HS Orku í Svartsengi í morgun er óljós að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, fagstjóra aflögunarmælinga Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Áfram er búist við aukinni kvikusöfnun og telur Benedikt líklegast að gos muni eiga sér stað fljótlega á svipuðum slóðum og fyrri gos.

Mælingar sem bárust HS Orku í morgun hafi líkst merkjum um hugsanlega kvikuopnun en reyndust rangar. Mælingarnar hafi engu að síður verið merkilegar, þar sem óvissan er nær algjör. 

Engin aukin skjálftavirkni eða aflögun hefur átt sér stað og metur Veðurstofan að mælingarnar hafi ekki tengst kvikuhlaupi.

Eftir innskotið 10. nóvember hefur kvikusöfnun aldrei komist yfir 13 milljónir rúmmetra fyrr en nú. Hún er því komin yfir þau mörk sem áður mörkuðu upphaf goss.

Farnir að útvíkka svæði hugsanlegs goss

Spurður hvort ekki þyki óeðlilegt, miðað við mynstrið hingað til, að ekkert gos sé hafið miðað við magn kviku, segir Benedikt það kannski ekki óeðlilegt en það tákni þó ákveðnar breytingar í kerfinu.

Það sé að breytast með tíma og það að kvikusöfnun hafi farið yfir þessi mörk geri óvissuna um hugsanlegt gos meiri fyrir vikið. 

Þegar óvissan eykst verði að huga að öðrum möguleikum og að sögn Benedikts eru sérfræðingar farnir að útvíkka svæði hugsanlegs goss. Þeir eru þá sérstaklega farnir að líta til jaðra kvikugangsins.

Samt sem áður segir Benedikt yfirgnæfandi líkur á að gos hefjst á svipuðum slóðum og síðustu gos og að öll gögn bendi til þess. 

Óvissan um hve fljótt gos fylgi eftir aukinni kvikusöfnun sé því farin að verða meiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert