Héraðssaksóknari gaf í dag út ákæru á hendur Pétri Jökli Jónassyni í tengslum við stóra kókaínmálið svokallaða.
Greindi RÚV frá ákærunni á hendur Pétri en í samtali við mbl.is staðfesti Jón Gunnar Sigurgeirsson, lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að málið væri komið á borð héraðssaksóknara. Kvaðst hann ekki getað staðfest hvort formleg ákæra hefði verið gefin út.
Jón Gunnar staðfestir þó að rannsókn hafi snúið að meintri aðild Jökuls að smygli á 99,25 kílógrömmum af kókaíni í timbursendingu frá Brasilíu til Íslands.
Þrír hafa þegar verið dæmdir í málinu sem er stærsta kókaínmál Íslandssögunnar og féllu þungir dómar yfir þeim árið 2022.
Þyngsta dóminn hlaut Páll Jónsson timbursali en dómur hans var mildaður úr tíu árum í níu ár í Landsrétti. Hann stóð að baki timbursendingunni frá Brasilíu sem tollverðir í Hollandi lögðu hald á, en efnin voru falin í sjö trjádrumbum.
Voru dómarnir einnig mildaðir yfir hinum þremur, þeim Birgi Halldórssyni, Daða Björnssyni og Jóhannesi Páli Durr. Hlaut Birgir sex og hálft ár og Daði og Jóhannes fimm ára fangelsi.
Lögregla hafði hug á að ræða við Pétur allt frá því handtöku þremenninganna sem voru dæmdir og skorað var á Pétur að gefa sig fram við lögreglu. Varð Pétur þó ekki við þeirri beiðni fyrr en tveimur árum síðar er alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir honum að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Pétur Jökull ferðaðist að lokum til landsins án fylgdar lögreglu í febrúar á þessu ári og var handtekinn við komu á Keflavíkurflugvelli.
Ekki liggur fyrir hver aðild Péturs er að málinu en þeir þrír dæmdu hafa haldið því fram að þeir séu ekki höfuðpaurar í málinu. Hafa þeir allir talað um ónafngreindan fjórða aðila sem þeir kalla „Nonna“ er hafi gefið þeim skipanir í verknaðinum.