Sveitarstjórn Norðurþings hefur til skoðunar að byggja nýjan leikskóla á Húsavík. Ástæða þess er að fólki á Húsavík hefur fjölgað undanfarin ár og hefur eftirspurn eftir leikskólaplássi aukist.
Norðurþing miðar við að börn komist inn í leikskóla við 12 mánaða aldur en þeim hefur ekki tekist að fylgja því, segir Helena Eydís Ingólfsdóttir, formaður fjölskylduráðs Norðurþings, í samtali við mbl.is.
Þau börn sem fengu úthlutað leikskólaplássi við síðustu úthlutun voru á aldrinum 13-18 mánaða.
Aðeins er búið að leggja fram fyrstu tillögur að gerð leikskólans. Meðal annars er því velt upp hvort leikskólinn verði yngri barna-, eldri barna eða aldursblandaður, auk þess sem staðsetning leikskólans er til skoðunar.
Helena segir að leikskólinn verði ekki tilbúinn fyrr en eftir nokkur ár.