Streymisveitur munu þurfa að greiða menningarframlag

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Streymisveitur á borð við Netflix, Disney+ og Stöð2+ munu þurfa að greiða menningarframlag til íslensks samfélags, til eflingar þess sem og eflingar íslenskrar tungu. Þetta kemur fram í nýjum drögum lagafrumvarps sem Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, lagði í samráðsgátt fyrr í dag.

Í frumvarpinu er lagt til að bæði erlendum sem og innlendum streymisveitum beri skylda að greiða menningarframlag til íslensks samfélags.

Streymisveitur eru fjölmiðlaveitur sem miðla efni eftir pöntun. Stærstu einkareknu streymisveiturnar á Íslandi eru Stöð 2+ í eigu Sýnar og Sjónvarp Símans Premium, í eigu Símans. Erlendar streymisveitur með starfsemi hér á landi eru meðal annars Netflix, Disney+, Viaplay og Amazon Prime Video, eins og fram kemur á vef samráðsgáttar.

Markmið frumvarpsins sé í hag innlendrar framleiðslu

Markmið frumvarpsins er að mynda hvata til fjárfestingar á innlendu efni, þar sem samkeppni innlendra miðla við þá erlendu hefur undanfarin ár haft fremur neikvæð áhrif á framleiðslu innlends efnis. Er sú þróun sögð bitna mikið á stöðu íslenskrar tungu.

Einnig er markmið þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum. Þá segir jafnframt að aukin fjárfesting í framleiðslu hérlendis muni leiða til aukinna tækifæra þeirra sem starfa hér á landi við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu.

Tveir kostir skyldu menningarframlags

Samkvæmt frumvarpinu á menningarframlagið að vera til hags fyrir innlenda framleiðslu og fylgja því tveir kostir. Annars vegar er það skyldan til að greiða Kvikmyndasjóði fjárframlag sem nemur að hámarki 5% af þeim áskriftartekjum sem streymisveiturnar afla á Íslandi, á ársgrundvelli.

Hins vegar skyldan til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni fyrir 5% af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitanna á Íslandi á ársgrundvelli. Heimilt verður að skipta kostnaði við beina fjárfestingu í þrennt, dreifa honum á þriggja ára tímabil og uppfylla skilyrðin þannig öll þrjú árin. 

Fjölmiðlanefnd skuli sjá um framkvæmd

Í frumvarpinu er lagt til að Fjölmiðlanefnd skuli hafa umsjón með framkvæmd menningarframlagsins og umsýslu innheimtunnar. Kvikmyndastöð Íslands á að taka við greiðslum og sjá um úthlutun sjóðsins. Greiðslur renna í tiltekinn styrktarflokk sjóðsins og verður úthlutað úr sjóðnum án mismununar.

Einnig er lagt til að ákvarðanir Fjölmiðlanefndar um upphæð og greiðslu menningarframlags verði kæranlegar til yfirskattanefndar í samræmi við stjórnsýslulög og að kærufrestur verði þrjátíu dagar.

Greiðsluskyldan á ekki að ná til þeirra streymisveitna sem annars vegar hafa litla veltu og/eða fáa notendur og hins vegar almannaþjónustufjölmiðla á borð við Ríkisútvarpið. Jafnframt því á skyldan ekki að ná yfir streymisveitur sem bjóða ekki upp á kvikmyndir, leikna sjónvarpsþætti eða heimildamyndir.

Í frumvarpsdrögunum kemur einnig fram að hafi streymisveitu, með staðfestu í íslenskri lögsögu, verið gert að greiða sambærilegt menningarframlag í öðru aðildarríki EES, sem hún beinir þjónustu sinni til, eigi að taka tillit til þess að hluta eða að öllu leyti, við ákvörðun menningarframlags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert