Umboðsskrifstofan Reykjavík Literary Agency starfar við það að kynna verk íslenskra höfunda fyrir erlendum útgefendum og kvikmyndagerðarmönnum. Þær Valgerður Benediktsdóttir og Stella Soffía Jóhannesdóttir segja að velgengni Arnaldar Indriðasonar hafi opnað dyr fyrir íslenska höfunda ytra.
Mýrin, fjórða skáldsaga Arnaldar Indriðasonar, hlaut Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, 2002 og í framhaldi af því varð Arnaldur einn vinsælasti glæpasagnahöfundur Norðurlanda.
Valgerður segir einmitt að skýra megi aukinn áhuga erlendra bókaútgefenda á íslenskum skáldskap að miklu leyti með því hve bækur Arnaldar Indriðasonar hafi náð mikilli hylli ytra.
„Það að Arnaldur varð metsöluhöfundur varpaði kastljósinu á aðra höfunda, hann varð nokkurs konar ísbrjótur. Það var þó á brattann að sækja til að byrja með að finna fyrsta útgefandann, enda skiptir fyrsti útgefandinn svo miklu máli. Það er stundum sagt að útgefendur séu svo mikil hjarðdýr, treysti svo mikið á dómgreind hinna, en okkur var sagt þegar við vorum að kynna óþekktan höfund: Ja, þetta er vonlaust nafn, maður með svona erfitt nafn getur aldrei náð neinum frama. Síðan eftir mörg ár þegar Arnaldur var orðinn metsöluhöfundur komu ýmsir útgefendur til okkar, ekki síst í Þýskalandi, og sögðu: Ég hefði átt að þora að stökkva á sínum tíma.“
Arnaldur opnaði dyrnar fyrir aðra höfunda að því þær segja, því í kjölfarið komu útgefendur að máli við íslenska útgefendur í leit að íslenskum bókum og með áherslu á að þær bæru með sér íslenskan blæ, eitthvað sem væri séríslenskt en alþjóðlegt í senn.
„Bókin á beinlínis að gerast á Íslandi,“ segir Stella og Valgerður bætir við: „Þegar sjónvarpsþættirnir Ófærð voru sýndir úti komu útgefendur til okkar og báðu um bækur með snjó.“