Atkvæðagreiðslu frestað: Kjörgögn skiluðu sér ekki

Utanríkisráðuneytið neyðist til að fresta til föstudags boðaðri  utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna komandi forsetakosninga sem átti að fara fram á Gran Canaria í dag. Það stafar af því að hluti kjörgagna sem send voru með forgangi á staðinn skiluðu sér ekki á áfangastað. 

Utanríkisráðuneytið leitar nú skýringa hjá flutningsaðilanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. 

„Athygli er vakin á því að kjörstjóri áritar sérstakt fylgibréf með hverju og einu atkvæði og heldur sérstaka skrá þar sem bókað er m.a. nafn, kennitala og lögheimili kjósenda og hvar og hvenær kosið var og hjá hvaða kjörstjóra. Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir að misfarið sé með glötuð kjörgögn. 

Utankjörfundaratkvæðagreiðslan á Gran Canaria verður á föstudaginn 24. maí nk. og mun fara fram á veitingastaðnum Why Not Lago á Maspalomas milli klukkan 11 og 14,“ segir í tilkynningunni. 

Þá er jafnframt vakin athygli á því að ofangreint hafi ekki áhrif á boðaða utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð sé á Tenerife á morgun fimmtudag, föstudag og laugardag, á hótelinu H10 Conquistador á amerísku ströndinni milli klukkan 10:00 og 14:00.

„Utanríkisráðuneytið ábyrgist að öll greidd utankjörfundaratkvæði verði flutt til viðeigandi kjörstjórna á Íslandi í tæka tíð, kjósendum að kostnaðarlausu,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka