Hermann Nökkvi Gunnarsson
Síðasti forsetafundur Morgunblaðsins og mbl.is í hringferðinni verður haldinn með Höllu Tómasdóttur fimmtudaginn 23. maí í Reykjanesbæ.
Fundurinn verður haldinn klukkan 19.30 á Park Inn by Radisson og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson munu spyrja Höllu spurninga um forsetaembættið og svo verður opnað fyrir spurningar úr sal frá fundargestum.
Í upphafi fundar verða fengnir tveir álitsgjafar til að rýna í stöðuna á forsetakosningunum og spá í spilin, en innan við tvær vikur eru núna þar til landsmenn ganga til kosninga.
Halla hefur verið á flugi í skoðanakönnunum að undanförnu og munar núna innan við 6 prósentustigum á henni og Katrínu Jakobsdóttur, sem er með mesta fylgið, í nýjustu skoðanakönnun Prósents.