Ísorka býður upp á vottaðar kolefniseiningar

Frá undirritun kaupsamninganna en viðstaddir voru Níels Einar Reynisson frá …
Frá undirritun kaupsamninganna en viðstaddir voru Níels Einar Reynisson frá Verkís, Sigurður Ástgeirsson frá Ísorku, Brynjar Elefsen frá BL, Sigurður Berndsen frá Hertz, Halldór Reykdal frá Pipar/TBWA og Aríel Jóhann Árnason frá Súrefni. Ljósmynd/Aðsend

Ísorka er fyrsta hleðslustöðvarfyrirtæki í Evrópu til að bjóða upp á vottaðar kolefniseiningar. Ísorka kláraði ferlið í mars um að ná að votta kolefniseiningar fyrir rafhleðslustöðvar sem hægt er að nýta strax.

Í tilkynningu frá Ísorku segir að á Íslandi hafi hingað til aðeins verið boðið upp á vottun kolefniseininga í bið. Þessi nýja vottun gerir fyrirtækjum og verkefnum á Íslandi kleift að tryggja að kolefniseiningarnar séu nýtanlegar strax. Vottunin er alþjóðleg og gildir fyrir rafhleðslustöðvar, fyrir bæði lítil og stór farartæki. 

Stór áfangi í átt að orkuskiptum

„Ísorka er fyrsta hleðslustöðvarfyrirtækið í Evrópu sem tekst á við þessa vottun. Þetta er því stór áfangi í átt að orkuskiptum og vegferðinni að aukinni sjálfbærni,“ segir Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku, í tilkynningunni.

„Allar núverandi hleðslustöðvar Ísorku verða vottaðar núna og smám saman munu fleiri bætast við í samræmi við gildandi skilyrði,“ segir Sigurður. 

Fyrirtækið Súrefni hafði yfirsýn með vottunarferlinu og sinnir sölu eininganna. Aríel Jóhann Árnason, framkvæmdastjóri Súrefnis segir að loksins sé kominn annar valkostur fyrir fyrirtæki sem vilja nýta kolefniseiningar sínar í mótvægisaðgerðir en jafnfram fylgja leikreglum um ábyrga og vottaða kolefnisjöfnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert