Kæmi verst við landsbyggðina

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hækkun virðisauka er bein árás á byggðastefnuna sem við erum að reyna reka,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í pallborðsumræðum í kjölfar fundar þar sem ný skýrsla um áhrif hækkunar virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna var kynnt.

Óli Björn sagði að ef virðisaukaskattur yrði hækkaður á ferðaþjónustuna myndi landsbyggðin finna hve mest fyrir því.

„Það er loks orðið lífvænlegra að búa á landsbyggðinni og þau hafa fengið viðspyrnu eftir að aðsókn ferðamanna jókst. Það eru þessir aðilar sem munu finna harðast fyrir því ef að virðisaukaskattur verður hækkaður á ferðaþjónustuna,“ sagði hann.

Vöxtur gæti dregist saman og samkeppnisstaðan veikst

Lokaskýrsla Hagrannsókna sf. um áhrif hækkunar á virðisaukaskatt úr 11 prósent í 24 prósent á ferðaþjónustuna var kynnt í dag á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar á Beryaja Reykjavík Natura. 

Niðurstöðurnar Hagrannsókna sýndu að hækkun á virðisaukaskatthlutfalli í ferðaþjónustunni gæti haft neikvæð áhrif á stöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Þá gæti hækkunin dregið úr vexti greinarinnar og veikt samkeppnisstöðu hennar.

Fýsilegra að taka upp aðgangspassa

„Auðvitað er hægt út frá þjóðhagslíkönum að komast að þeirri niðurstöðu að það eigi ekki að borga neina skatta, en við gerum það samt. Þetta er bara spurning um fórnarkostnaðinn af því og hvaða gjöld og skattar er skynsamlegt að beita,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar í pallborðsumræðunum í dag.

Jóhann Páll sagði að Samfylkingin væri ekki að horfa til þess að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna heldur væri flokkurinn frekar að horfa til aðgangspassa fyrir ferðamenn. Þannig væri hægt að auka tekjur ferðaþjónustunnar til ríkisins.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við viljum að upplifun ferðamanna sé einstök“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála og viðskipta- og menningarmálaráðherra, var sammála því að óskynsamlegt væri að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Þá lagði hún einnig áherslu á að mikilvægt væri að efla nýsköpun og samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar.

„Í tillögu ferðamálastefnunnar er lagt til að afnema gistináttaskatt og taka frekar upp aðgangsstýringar til að auka samkeppnishæfni,“ sagði Lilja Dögg í pallborðsumræðunum í dag. 

„Við viljum að upplifun ferðamanna sé einstök.“ 

Þá lagði hún til að ferðaþjónustan myndi horfa til nýjustu tækni, eins og gervigreindar,  til að efla nýsköpun í ferðaþjónustunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-viðskipta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert