Kaupsamningar í mars voru 1.122 talsins og fjölgaði frá því í febrúar þegar þeir voru 1.000.
Kaupsamningar á fyrsta ársfjórðungi voru 2.673 talsins, eða 29% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Fram kemur í mánaðarskýrslu HMS að áberandi hafi verið fjölgun kaupsamninga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en ríflega helmingi fleiri samningum var þinglýst þar í ár samanborið við 2023.
Hlutfall íbúða sem seldust á yfirverði í mars hækkaði í öllum landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 18,3% íbúða á yfirverði í mánuðinum og í nágrenni þess seldust um 14,5% íbúða á yfirverði. Annars staðar á landinu var hlutfallið 13,1%.
Fasteignafélagið Þórkatla hefur yfirfarið og samþykkt kaup á 660 húseignum í Grindavík eða um 85% allra umsókna sem borist hafa. Búið er að undirrita og þinglýsa 471 kaupsamningi.
„Leigumarkaðurinn ber merki um mikið ójafnvægi framboðs og eftirspurnar. Tölur af leiguvefnum myigloo.is sýna að mun fleiri einstaklingar eru í virkri leit heldur en þær íbúðir sem eru til leigu á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024 sem bendir til að framboð leiguíbúða sé af skornum skammti. Í apríl sl. sendu 67% fleiri einstaklingar inn umsókn um a.m.k. eina íbúð en á sama tíma í fyrra,” segir einnig í tilkynningunni.