Lögreglan á Suðurlandi hefur farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir öðrum manninum og farbanni yfir hinum sem setið hafa í gæsluvarðhaldi vegna gruns um manndráp í sumarhúsi i uppsveitum Árnessýslu þann 20. apríl. Verður þar með öðrum þeirra sleppt úr haldi og farbann látið duga, samþykki dómstóll það.
Þetta staðfestir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Selfossi, í samtali við mbl.is en gæsluvarðhald yfir tveimur litháískum mönnum rennur út í dag.
Beiðni lögreglunnar verður tekin fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í dag og segir Jón Gunnar að maðurinn sem lögreglan óski eftir að verði í farbanni hafi ennþá réttarstöðu sakbornings
Maður frá Litháen á fertugsaldri var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á vettvang. Málið er rannsakað sem manndráp og segir Jón Gunnar að rannsókninni miði vel og að lögreglan sé komin með nokkuð góða mynd af því sem gerðist í sumarhúsinu.