Forvarnir geðlægða geta bætt og lengt líf

Hugræn atferlismeðferð við þunglyndi hefur skilað góðum árangri fullorðinna og …
Hugræn atferlismeðferð við þunglyndi hefur skilað góðum árangri fullorðinna og stenst samanburð við virkni lyfjameðferðar gegn geðlægð. Mikilvægt er að mati Eiríks og Craighead að innleiða þessa leið við forvörn ungmenna einnig. Ljósmynd/Colourbox

Alvarleg geðlægð ungmenna er algeng og mikilvægt er að koma í veg fyrir hana. Það er auk þess mikill efnahagsávinningur fyrir samfélagið allt. Forvarnir geta lengt líf þeirra, sem eru í áhættuhópi og fengju síður geðlægð, þar sem þær koma í veg fyrir sjálfsvíg og aðrar afleiðingar geðlægðar. 

Þetta segja þeir Eiríkur Örn Arnarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri sálfræði, og W. Ed. Craighead, prófessor við Emory-háskólann í Atlanta í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is. 

Hugur og heilsa er forvarnanámskeið fyrir grunnskólabörn í 9. bekk, börn sem eru 14 til 15 ára gömul, og hefur nú þegar verið innleitt í nokkrum grunnskólum landsins. Meginmarkmið verkefnisins er að koma í veg fyrir alvarlega geðlægð, þá einna helst fyrstu geðlægðarlotuna, hjá ungmennum sem hafa ekki enn greinst með hana, en eru í áhættuhópi. Hugur og heilsa er verkefni sem þróað er af þeim Eiríki og Craighead. 

Í gær fór fram ráðstefna í Veröld, Húsi Vigdísar, um mikilvægi þess að innleiða verkefnið í öll skólakerfi landsins þar sem afraksturinn yrði hagkvæmur, ekki bara einstaklingunum sjálfum heldur einnig íslensku heilbrigðis- og velferðarkerfi. 

Mbl.is ræddi við Eirík og Craighead varðandi verkefni þeirra og mikilvægi þess að koma því á fót í skólum landsins.

Að sögn Eiríks er mikilvægt að koma í veg fyrir …
Að sögn Eiríks er mikilvægt að koma í veg fyrir fyrstu lotu geðlægðar þar sem hún markar oft upphafið að síendurteknum geðlægðum. Ljósmynd/Colourbox

Mikilvægt að koma í veg fyrir fyrstu lotu geðlægðar

Þeir segja að hugræn atferlismeðferð við þunglyndi hafi skilað góðum árangri fullorðinna og standist samanburð við virkni lyfjameðferðar gegn geðlægð. Mikilvægt sé að innleiða þessa leið við forvarnir ungmenna einnig.

Geðlægð er algeng meðal ungmenna og getur reynst hamlandi. Niðurstöður námskeiða Hugar og heilsu hafa sýnt fram á að forvörn af þessu tagi dragi úr einkennum geðlægðar og sporni jafnframt við þróun hennar, sem skili sér í margvíslegum ávinningum fyrir samfélagið allt.

Að sögn Eiríks er mikilvægt að koma í veg fyrir fyrstu lotu geðlægðar þar sem hún markar oft upphafið af síendurteknum geðlægðum. Það gæti haft áhrif á námsárangur, atvinnu, félagshæfni, lífsgæði og leitt til misnotkunar áfengis og fíkniefna síðar á lífsleiðinni.

Árangursríkt forvarnanámskeið

Aðspurður segir Eiríkur að ferli námskeiða Hugar og heilsu hefjist á greiningarviðtölum. Markmiðið sé að grípa þann hóp sem hrjáist ekki endilega af geðlægð á þeim tíma en sýni þó mörg einkenni og teljist vera í áhættuhópi fyrir frekari þróun geðlægðar.

Verkefnið hefur verið innleitt á Íslandi, í Portúgal, Grikklandi og Svíþjóð og sýna niðurstöður allra landanna nánast sömu útkomuna.

Ungmennum var skipt upp í tvo hópa, annar hópurinn tók þátt í námskeiðinu en hinn ekki. Niðurstöður sýndu að hinn síðarnefndi var sex til sjö sinnum líklegri til að þróa með sér meiri háttar geðlægðarlotu en hópurinn sem tók þátt í námskeiðinu. 

Námskeiðið studdist við hugmyndir hugrænna atferlismeðferða og var mótað í kringum þá sem ekki höfðu upplifað meiri háttar geðlægð.

Innleiðing námskeiðsins í grunnskóla sé hagkvæm

Craighed segir að niðurstöður BS-ritgerðar Þórdísar Huldar Atladóttur í hagfræði, sem nefnist Kostnaðarvirknigreining á innleiðingu verkefnisins Hugur og heilsa í íslenskt skóla- og heilbrigðiskerfisýni að innleiðing og rekstur námskeiðsins Hugur og heilsa í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu sé mjög hagkvæm.

Þar segir jafnframt að forvarnir gegn þunglyndi hjá 14 – 15 ára ungmennum skili 17 áunnum lífsgæðavegnum lífsárum. 

Þá bætir Craighead við að á meðan engin forvörn skili miklum heildarkostnaði, bæði hjá einstaklingum sem og samfélaginu öllu, þar sem geðlægðir geta hamlað afkastasemi ungmenna sem skilar lakari þátttöku í verkefnum samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert