Héraðsdómari á Suðurlandi hafnaði beiðni lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir litháískum manni grunuðum um manndráp í sumarhúsi í Kiðjabergi í apríl. Hann gengur samt ekki lausum hala þar sem hann þarf að afplána útistandandi dóm.
Tveir litháískir karlmenn sitja í gæsluvarðhaldi vegna gruns um manndráp í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu þann 20. apríl en gæsluvarðhald yfir þeim rennur út í dag.
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Selfossi, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir öðrum sakborningum en farbann yfir hinum.
Dómari féllst á farbannið en ekki á gæsluvarðhaldið.
Búið er að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og Jón Gunnar gerir ráð fyrir frekari vendingum fljótlega eftir helgi.
Maðurinn sem lögreglan vildi framlengja varðhald yfir átti aftur á móti annan dóm yfir sér. Hann gengur því ekki lausum hala, heldur mun þurfa að afplána þann dóm.
„Maður var með útistandandi dóm og afplánun og hefur hana í beinu framhaldi,“ segir Jón en hann kveðst ekki vita meira um eldri dóminn.
Upphaflega voru fjórir menn handteknir þann 20. apríl en tveimur síðar sleppt.
Maður frá Litháen á fertugsaldri var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á vettvang. Málið er rannsakað sem manndráp og segir Jón Gunnar að rannsókninni miði vel og að lögreglan sé komin með nokkuð góða mynd af því sem gerðist í sumarhúsinu.