Móðir sjö vikna stúlku sem lést skömmu eftir að hafa heimsótt Landspítala harmar viðbragsleysi landlæknis eftir að málið kom inn á borð hans. Andláti barnsins sé lýst sem vöggudauða en móðirin telur krufningarskýrslu sýna allt aðra hluti og að um læknamistök hafi verið að ræða.
Móðirin heitir Anita Berkeley og lýsir sinni upplifun af málinu í færslu á Facebook. Þar segir hún jafnframt frá samskiptum við forstjóra Landspítala og að hún hafi setið tvo fundi með honum í kjölfar andláts dóttur hennar.
Dóttir hennar hét Winter og kom Anita með hana á Landspítalann þann 31. október á síðasta ári þar sem hún þjáðist meðal annars af andnauð að sögn Anitu.
Telur hún að viðmót læknis sem fylgst hafi með barninu hafi einkennst af tómlæti en jafnframt að hann hafi sakað hana um illa meðferð á barninu. Lýsir hún því að dóttir hennar hafi kvalist af andstoppum og bláma.
Við komu á spítalann segir hún að lítið hafi verið gert úr áhyggjum sínum. Hún hafi ítrekað beðið um rannsóknir á barninu en hennar áhyggjum hafi ekki verið sinnt.
Þó varð úr að þvagprufa var framkvæmd og í ljós hafi komið sýkingar en engu að síður var barnið útskrifað og henni sagt að um væri að ræða dæmigert kveisubarn.
Um hálfum sólarhring síðar var barnið látið að sögn Anitu.
„Nú liggur krufningarskýrslan fyrir í heild og er þar staðfest að fundust heilaskemmdir á nokkrum stöðum, blettur í öðru lunga og hún var með veirusýkingu í lungum og blóði. Þessi veirusýking ef ómeðhöndluð getur lýst öllum einkennum sem Winter sýndi af sér þaes. Bláman, andstoppin, uppköstin, óværðina ALLT! Einnig getur þessi sama veirusýking ef ómeðhöndluð orðið börnum undir 3 mánaða að bana…. Þrátt fyrir allt þetta er andlátinu hennar lýst sem vöggudauða… en dánarorsök óljós?…. Þar með er niðurstaða krufningunnar vöggudauði…," skrifar Anita á Facebook.
Þá bendir Anita á í færslunni að hún hafi tvívegis setið fundi með með Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítala. Á seinni fundinum hafi henni verið tjáð að spítalanum væri ekki stætt á því að senda lækninn í leyfi, því ekkert sem fram hefði komið sem kallaði á það.
Jafnframt var henni tjáð að engin bráðaveikindaeinkenni hefðu verið skráð í sjúkraskýrslu barnsins.