Tilkynning barst lögreglunni um tvo menn á skemmtistað í miðbænum og að annar þeirra væri með skotvopn á sér.
Vopnuð lögregla ásamt sérsveit handtóku mennina skömmu síðar þegar þeir voru komnir í bifreið. Í ljós kom að um eftirlíkingu úr málmi var að ræða.
Einnig voru mennirnir með fíkniefni á sér og er annar þeirra grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Tveir voru handteknir vegna ofbeldis í heimahúsum. Í fyrra málinu einstaklingurinn nokkuð ölvaður og verður tekin skýrsla af honum þegar rennur af honum. Í síðara málinu reyndi einstaklingurinn einnig að slá til lögreglumanns.
Tilkynnt var um þjófnað úr verslun og voru þrír einstaklingar þar að verki. Málið var leyst á staðnum.
Einn var handtekinn stutt frá vettvangi þar sem tilkynnt var um innbrot. Öryggisverðir höfðu verið að fylgjast með honum og kom fram að hann væri mjög ölvaður og að reyna að komast inn í bifreiðar í nágrenninu. Reyndist þetta vera einstaklingur sem lögregla hafði haft afskipti af fyrr um nóttina vegna ölvunar. Þegar komið var á lögreglustöð varð hann mjög ósáttur við að vera vistaður í fangaklefa vegna málsins. Endaði hann á því að hóta lögreglumanni öllu illu og reyndi að sparka í annan.