Bæta þarf stöðu Náttúruhamfaratryggingar

Hraun ann yfir íbúðarhús í Grindavík í janúar.
Hraun ann yfir íbúðarhús í Grindavík í janúar. mbl.is/Árni Sæberg

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) segir, að verði ekki brugðist við með einhverjum hætti við því fjárhagslega áfalli, sem stofnunin hefur orðið fyrir vegna atburðanna í Grindavík, sé ljóst að komið gæti til umtalsverðrar skerðingar á tjónabótum til þeirra sem lenda í eignatjóni af völdum náttúruhamfara í framtíðinni.

Þetta kemur fram í umsögn NTÍ við frumvarp um Þjóðarsjóð, sem nú er í meðförum Alþingis. Leggur stofnunin til að samhliða stofnun Þjóðarsjóðs verði hugað að framtíðarfjármögnun fyrir NTÍ. Ljóst sé að stofnunin hafi orðið fyrir stórkostlegu fjárhagslegu áfalli í tengslum við atburðina í Grindavík, bæði vegna útborgana tjónabóta og ekki síður vegna lagasetningar þar sem stofnunin þurfi að greiða allt að 15 milljarða inn í fasteignafélagið Þórkötlu.

Mikilvægt sé að huga að því hvernig staðið verði að því að bæta gjaldþol sjóðsins, þannig að hann geti staðið undir þeim skuldbindingum sem honum sé ætlað samkvæmt lögum.

Heildargreiðsluskylda NTÍ í hverjum atburði takmarkast við 10%o af samanlögðum vátryggingafjárhæðum, eða samtals 220 milljarða króna miðað við núverandi verðmæti vátryggingastofnsins. Nemi bætur vegna sama vátryggingaratburðar hærri fjárhæð skal hlutur allra vátryggðra, sem tjón bíða, skerðast í sama hlutfalli.

„Eigið fé NTÍ fyrir atburðinn í Grindavík nam um 28,5% af heildargreiðsluskyldu sjóðsins, en mun nema minna en 15% af heildargreiðsluskyldu eftir að greiðslur hafa verið inntar af hendi til Þórkötlu, eða um 31 milljarði króna. Áður en fjármunum verður ráðstafað í Þjóðarsjóð er áríðandi að horft verði til þess að bæta húseigendum á Íslandi upp þessa skerðingu á getu sjóðsins til að bregðast við í alvarlegum náttúruhamförum. Verði ekki brugðist við með einhverjum hætti er ljóst að komið gæti til umtalsverðrar skerðingar á tjónabótum til þeirra sem lenda í eignatjóni af völdum náttúruhamfara í framtíðinni,“ segir í umsögn NTÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka