„Verði þetta látið viðgangast, þessi netsala, þá er einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis búið að vera og þá er það gert án þess að Alþingi Íslendinga hafi komið nálægt því," segir Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í samtali við mbl.
Segir Eyjólfur ekkert vera óskýrt við regluverk og lagaumhverfi landsins varðandi netverslanir sem selja áfengi.
„Lögin eru alveg skýr. Það er einkaleyfi ríkisins til smásölu á áfengi og það er ekki verið að framfylgja þeim lögum,“ segir Eyjólfur. „Það er alveg klárt mál að netsala er smásala.“
Lögregluyfirvöld ekki að sinna skyldum sínum
Eyjólfur segir að stöðva þurfi starfsemina ef halda eigi uppi lögum í landinu og ríkissaksóknari og lögregluyfirvöld séu ekki að sinna skyldum sínum.
„Eina sem ég get sagt er það að það er búið að vera brjóta lög í landinu núna í fjögur ár án þess að það sé gert neitt.“
Segir Eyjólfur einu óvissuna vera að engin skilji af hverju það sé ekki verið að framfylgja lögum landsins. Nefnir hann að boða ætti lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara á opinn þingnefndarfund.
„Ég óskaði eftir því og fékk ekki ríkissaksóknara á opinn fund. Hann neitaði að koma og það var mjög slæmt því ég vildi vekja athygli á þessu með þessum hætti,“ segir Eyjólfur og bætir við að ríkissaksóknari þurfi að svara fyrir gjörðir sínar.
Vísar þar Eyjólfur til fundar sem hann átti með lögreglustjóra í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem kom fram að ekki væri í forgangi hjá lögreglu að hafa afskipti af netverslunum sem selja áfengi.
Eyjólfur segist einnig hafa óskað eftir minnisblaði frá dómsmálaráðherra vegna yfirlýsingar fyrrum dómsmálaráðherra að starfsemin væri lögleg. Vill Eyjólfur fá að vita hvaða lögfræðilega greining liggi þar að baki.