Jóhanna, Guðrún og Kristófer verðlaunuð

Frá vinstri, Jóhanna Bárðardóttir, Guðrún Inga Guðbrandsdóttir og Kristófer Helgi …
Frá vinstri, Jóhanna Bárðardóttir, Guðrún Inga Guðbrandsdóttir og Kristófer Helgi Antonsson. Ljósmyndir/Haraldur Guðjónsson Thors og Gabríel.

Jóhanna Bárðardóttir, Guðrún Inga Guðbrandsdóttir og Kristófer Helgi Antonsson hlutu viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur á fjölmennustu brautskráningu Tækniskólans frá upphafi í gær.

Lykillinn að velgengni nám á eigin forsendum

Jóhanna Bárðardóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í rafveituvirkjun. Hún segir lykilinn að velgengni sinni hafa verið að fara í námið á eigin forsendum.

„Maður er að gera þetta fyrir sjálfan sig af því að þetta er það sem maður hefur áhuga á að gera og þetta kemur til með að efla mann í starfi og í lífinu,“ segir Jóhanna.

„Í febrúar á næsta ári tek ég sveinspróf í rafveituvirkjun og þá á fæ ég starfsréttindi í háspennu. Þar sem að ég er að vinna í álverinu í Straumsvík þá mun ég eftir sveinsprófið hafa aðgang að verkefnum í aðveitustöðinni,“ segir Jóhanna aðspurð hvað taki við.

Meistari í úrsmíði með 10 í meðaleinkunn

Guðrún Inga Guðbrandsdóttir útskrifaðist sem meistari í úrsmíði með 10 í meðaleinkunn. 

Hún var upphaflega að læra gull- og silfursmíði og var að vinna í verslun Michelsen-úrsmiða þegar Frank Michelsen úrsmíðameistari sannfærði hana að leggja úrsmíði fyrir sig í staðinn.

„Frank Michelsen bauð mér samning í úrsmíði, ég skipti um leið og sé ekki eftir því í dag,“ segir Guðrún Inga.

„Ég sé fram á að vinna hjá Michelsen í náinni framtíðinni en svo er aldrei að vita hvort maður fari út í einhverjar klukkuviðgerðir og opni eigið klukkuverkstæði meðfram vinnunni hjá Michelsen,“ segir Guðrún Inga aðspurð hvað taki við.

„Tölvurnar lágu alltaf vel fyrir mér“

Kristófer Helgi Antonsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á tölvubraut.

„Ég vissi alltaf að ég væri ekkert mikið fyrir bóklegt nám og tölvurnar lágu alltaf vel fyrir mér, þannig að ég ákvað að prófa þetta nám,“ segir Kristófer. 

Að sögn Kristófers hentaði það honum vel að tölvurnar voru kenndar verklega svo það var ekki bara bóklegt nám.

Samhliða góðum námsárangri hefur Kristófer keppt í ýmsum tölvukeppnum.

„Í fyrravor keppti ég í Baltic Ólympíuleikunum í keppnisforritun og svo um haustið fór ég út með Gagnaglímufélagi Íslands að keppa í hökkun, eða netöryggi,“ segir Kristófer. 

Að lokum kveðst Kristófer stefna á að fara í nám í netöryggi við Lancaster-háskóla í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert