Lögreglan leitar enn að manninum eða mönnunum sem hafa að undanförnu ógnað eða jafnvel ráðist á börn í Hafnarfirði. Engar frekari vísbendingar hafa komið fram síðan í gær, að sögn lögreglu.
Fjögur atvik urði í Hafnarfirði að undanförnu þar sem maður annað hvort ógnaði börnum eða réðst á þau. Öryggisráðstafanir í Víðistaðaskóla hafa verið auknar fyrir vikið.
„Ekkert nýtt,“ svarar Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, spurður af blaðamanni mbl.is hvort einhverjar nýjar vendingar séu í rannsókn málsins.
Hann svarar neitandi hvort eitthvert vitni hafi gefið sig fram. Enn sé óljóst hvort um sama mann sé að ræða í öllum tilvikum.
Atvikin áttu sér öll stað í Hafnarfirði; við Víðistaðatún, við Engidalsskóla, nærri Lækjarskóla og nú síðast í gær var ráðist á níu ára stúlku við Víðistaðaskóla.
Mismunandi lýsingar hafa verið gefnar á geranda í málunum.
Lýsingin á manninum er sambærileg í tilkynningum til lögreglu frá fyrsta atvikinu þar sem maður ógnaði níu ára dreng og í annarri tilkynningu ógnaði maður öðrum tveimur drengjum, samkvæmt því sem Skuli Jónsson stöðvarstjóri sagði við mbl.is í gær.
Þá hefur lögregla einnig fengið tilkynningu um mann sem elti níu ára stúlku við Lækjarskóla og bauð henni nammi. Sú lýsing hafi einnig verið í takt við hinar.
Í gær var síðan ráðist að 11 ára stúlku við Víðistaðaskóla. Skúli sagði atvikið frábrugðið að því leyti að það er alvarlegra og lýsingar á manninum öðruvísi.