Búið er að útvega meðferðarheimilinu, Lækjarbakka á Rangárvöllum, nýtt húsnæði eftir að hætta þurfti starfsemi heimilisins þegar að mygla fannst í gömlu húsnæði heimilisins fyrr á árinu.
Starfsemi heimilisins mun hefjast að nýju í næsta mánuði í Hamarskoti í Flóahreppi, segir í tilkynningu.
Í tilkynningu segir að heimilið sé eitt sinnar tegundar á landinu. Heimilið býður drengjum upp á langtímameðferð við vanda á borð við vímuefnaneyslu, ofbeldi, afbrot, skóla- og námserfiðleika eða sálfélagslegan vanda, að því gefnu að hafa lokið meðferð á meðferðarheimilinu Stuðlum.
„Þrotlaus vinna hefur farið í að finna meðferðarheimilinu Lækjarbakka nýjan stað og fagnaðarefni að það hafi tekist. Hver dagur sem líður án viðunandi aðstöðu er einum degi of mikið, fyrir drengina á meðferðarheimilinu og einnig fjölskyldur þeirra. Í Hamarskoti er hægt að hefja starfsemina að nýju sem fyrst og til lands tíma,“ er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í tilkynningu.
Allt að sex drengir eru á heimilinu hverju sinni og tekur meðferðin um sex mánuði þó tímalengd sé mismunandi eftir einstaklingum. Áhersla er lögð á að virkja drengina í tómstundum, skóla og vinnu. Við lok meðferðar stendur þeim til boða sex mánaða eftirfylgd.
Húsnæðið Hamarskot er í eigu hins opinbera í gegnum Húsnæði- og mannvirkjastofnun og er í leigu Barna- og fjölskyldustofu.