Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi sat fyrir svörum í nýjasta þætti Spursmála undir stjórn Stefáns Einars Stefánssonar sem sýndur var hér á mbl.is fyrr í dag.
Upptöku af þættinum má sjá í spilaranum hér að neðan, á Spotify og Youtube. Þátturinn er öllum aðgengilegur.
Undanfarið hefur framboð Arnars vakið mikið umtal. Einna helst eftir að Arnar Þór kærði Halldór Baldursson skopteiknara til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands á dögunum.
Þá hafa hugsjónir Arnars og andóf hans á ríkjandi stjórnarfari og forræðishyggju ríkisvaldsins einnig verið í umræðunni síðastliðna daga. Hefur hann hlotið þó nokkra gagnrýni vegna afstöðu sinnar til þungunarrofs og bólusetninga en Arnar Þór gefur sig út fyrir að vera mikill talsmaður fyrir frelsi einstaklingsins.
Í þættinum voru krefjandi spurningar lagðar fyrir Arnar Þór. Spurningarnar sneru að skyldu og valdbeitingu sem koma í hlut forsetans og með hvaða hætti Arnar hyggst beita sér í embættinu út frá hans sterku sjónarmiðum, nái hann kjöri.
Arnar Þór situr nú í sjötta sæti á meðal þeirra tólf frambjóðenda sem gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Hefur fylgi hans verið að aukast jafnt og þétt síðustu vikur. Í nýjustu skoðanakönnun Prósents mælist hann með 6% fylgi sem er töluverð hækkun frá könnuninni sem birt var í vikunni á undan. Þar mældist fylgi hans 4,3%.
Eftir rúma viku ganga kjósendur að kjörborðinu með nokkurri eftirvæntingu. Mikið flökt hefur verið á fylgi frambjóðenda fram að þessu en nú fer að styttast í annan endann á kosningabaráttunni þar sem við öllu er að búast eins og nýjustu vendingar skoðanakannana benda til.
Líflegri fréttaviku lýkur nú senn og verða helstu fréttir vikunnar gerðar upp í þættinum líkt og vant er. Þau Ragnheiður Guðmundsdóttir ritstjóri Eftir vinnu hjá Viðskiptablaðinu mætti í settið ásamt Birni Inga Hrafnssyni ritstjóra Viljans til að rýna helstu fréttir.
Ekki missa af upplýsandi og fjörugri samfélagsumræðu í Spursmálum hér á mbl.is alla föstudaga klukkan 14.