United Airlines hóf í dag árstíðarbundið beint flug milli Keflavíkurflugvallar og heimahafnar sinnar í New York/Newark.
Flugfélagið bauð áður upp á þessa flugleið á árunum 2018-2022 en gerðu hlé á fluginu sumarið 2023. Hún bætist nú aftur við flug félagsins milli Keflavíkurflugvallar og heimahafnar á O´Hare-flugvelli í Chicago.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keflavíkurflugvelli. Þar er haft á eftir Grétari Má Garðarssyni, forstöðumanni flugfélaga og leiðaþróunar á Keflavíkurflugvelli, að Keflavíkurflugvöllur hafi áður átt í góðu samstarfi við United og hlakki til að efla þau tengsl enn frekar.
United Airlines flýgur milli áfangastaðanna á Boeing 757-200 flugvélum. Flug milli Keflavíkurflugvallar og New York/Newark (EWR) hófst í dag og stendur til loka október. Flug félagsins milli Keflavíkurflugvallar og O´Hare-flugvallar í Chicago hófst 10. maí síðastliðinn og stendur til 25. september.
„Það gleður okkur hefja að nýju beint flug milli Íslands og New Yok/Newark í fyrsta sinn síðan 2022,“ er haft á eftir Amit Badiani, yfirmanni sölusviðs United Airlines.