Útskrifaðist með 9,56 í meðaleinkunn

Skólameistari FÁ sagði skólastarfið líkjast garðyrkju.
Skólameistari FÁ sagði skólastarfið líkjast garðyrkju. Ljósmynd/Aðsend

Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði 103 nemendur frá skólanum í dag. Arna Rut Arnardóttir útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,56 og varð fyrir vikið dúx skólans. 

Hún hlaut viðurkenningu fyrir árangur í íslensku, stærðfræði og þýsku og raungreinarverðlaun frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum og menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverðar þrautseigju, segir í tilkynningu. 

Arna Rut Arnarsdóttir, dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla árið 2024.
Arna Rut Arnarsdóttir, dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla árið 2024. Ljósmynd/Aðsend

Líkir skólastarfi við garðyrkju

Magnús Ingvarsson skólameistari og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari fluttu ávörp við útskriftarathöfnina og sagði Magnús það vera forréttindi að starfa innan skólakerfisins og sjá ungt fólk vaxa og dafna. Þá líkti hann skólastarfi við garðyrkju, að það þyrfti að hugsa um hvert einasta blóm í garðinum, vökva þau og gæta þess að þau fái næga birtu. 

Í tilkynningu segir að Kristrún hafi vísað í ræðu sinni til bókar Guðmundar Finnbogasonar Lýðmenntun, en þar segir:

„Menntun hvers manns verður að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra.“

Fjölbrautarskólinn stendur undir nafni 

Alls útskrifuðust 103 nemendur frá skólanum frá fjölda mismunandi brauta:

Af heilbrigðissviði skólans útskrifuðust 35 nemendur. Af sjúkraliðabraut 17 nemendur, 5 af heilbrigðisritarabraut, 1 af lyfjatæknibraut, 6 af heilsunuddbraut og 5 af tanntæknabraut.

Frá Nýsköpunar-og listabraut útskrifuðust 3 nemendur

Af sérnámsbraut útskrifuðust 10 nemendur eftir 4 ára nám.

10 útskrifuðust af félagsfræðibraut, 3 af íþrótta- og heilbrigðisbraut, 12 af náttúrufræðibraut, 26 af opinni braut, 3 af viðskipta-og hagfræðibraut og 11 með viðbótarnám að loknu starfsnámi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka