„Allir komnir undir læknishendur“

Gríðarlegur fjöldi sjúkraflutningabíla var sendur á vettvang, bæði frá Heilbrigðisstofnun …
Gríðarlegur fjöldi sjúkraflutningabíla var sendur á vettvang, bæði frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Björgunarstarf gekk vel á Suðurlandi í dag þar sem rúta valt út af Rangár­valla­vegi. Bílstjórinn og allir 26 farþegar rútunnar eru Íslendingar og hver einasti þeirra var fluttur slasaður á sjúkrahús.

Bílveltan átti sér stað ná­lægt bænum Stokkalæk, um 9 km norðaustur af Hvolsvelli, skömmu fyrir kl. 17 í dag. Ekki ligg­ur fyr­ir með hvað hætti slysið varð en lög­regl­an á Suður­landi fer með rann­sókn þess.

Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi í dag. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Hóp­slysa­áætl­un var virkjuð vegna slyssins. Samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð var einnig virkjuð.

Gríðarlega margir sjúkraflutningabílar voru kallaðir til, bæði frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og Heilbrigðisstofnun Suðurlands, og tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru ræstar út.

„Gekk mjög vel“

„Björgunarstarfið gekk mjög vel,“ segir Jón Gunn­ar Þór­halls­son, yf­ir­lög­regluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is

Hver ein­asti um borð í rútunni var flutt­ur á sjúkra­hús til aðhlynn­ing­ar, ým­ist á Heilsu­gæsl­una á Hellu eða Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands og flytja þurfti sjö með þyrlum á Landspítalann í Fossvogi.

Frá slysstaðnum við bæinn Stokkalæk.
Frá slysstaðnum við bæinn Stokkalæk. Ljósmynd/Aðsend

Óljóst hverjir áverkarnir eru

„Það voru allir komnir undir læknishendur,“ segir Jón Gunnar, sem kveðst samt ekki geta tjáð sig um líðan hinna slösuðu.

Jón sagði við mbl.is fyrr í dag að allir í rútunni væru Íslendingar. Hann benti einnig á að áverkar á fólki væru mis­mun­andi en að ein­hverj­ir væru „meiri­hátt­ar“.

Rút­an er í eigu rútu­fyr­ir­tæk­is­ins GTS, Guðmunds Tyrf­ings­son­ar.

Hjálp­arsím­inn 1717 veit­ir sál­ræn­an stuðning til þeirra sem þess óska. Opnað hef­ur verið söfn­un­ar­svæði aðstand­enda í hús­næði Árnes­deild­ar RKÍ að Eyr­ar­vegi 23 Sel­fossi einnig.

Bílveltan átti sér stað ná­lægt bænum Stokkalæk.
Bílveltan átti sér stað ná­lægt bænum Stokkalæk. map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert