Sjö hafa verið fluttir á Fossvogsspítala með þyrlum Landhelgisgæslunnar eftir að rúta með um 30 farþegum valt á Rangárvallavegi í dag.
Rútan valt á Rangárvallavegi nálægt Stokkalæk skömmu fyrir kl. 17 í dag. Um 20-30 manns voru í rútunni.
Björgunarstarf stendur enn yfir og unnið er að því að flytja slasaða af vettvangi. Nákvæmur fjöldi slasaðra liggur ekki fyrir.
Aðstæður voru með þeim hætti að hópslysaáætlun var virkjuð þegar í stað, sem og samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru ræstar út og eru mættar á vettvang, segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Fyrri þyrlan flutti þrjá á Fossvogsspítala og hin flutti fjóra. Þyrla verður ekki send aftur á vettvang, að sögn Ásgeirs.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig sent þrjá sjúkraflutningabíla til að aðstoða með sjúkraflutninga.
Ekki liggur fyrir með hvað hætti slysið varð en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn þess. Slysið varð nálægt Stokkalæk og hefur lögreglan lokað fyrir stóran hluta vegarins, segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Yfirlögregluþjónninn vildi ekki svara því hvort einhver væri alvarlega slasaður eða úrskurðaður látinn á vettvangi.
Hjálparsíminn 1717 veitir sálrænan stuðning til þeirra sem þess óska. Opnað hefur verið söfnunarsvæði aðstandenda í húsnæði Árnesdeildar RKÍ að Eyrarvegi 23 Selfossi einnig.
Fréttin hefur verið uppfærð.