Hermann Nökkvi Gunnarsson
Halla Tómasdóttir kveðst hafa aðgreint sig frá öðrum frambjóðendum með því að tala um sig og hvað hún stendur fyrir, en ekki með því að tala um það hvernig hún sé betri en aðrir forsetaframbjóðendur.
Þetta sagði hún á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is sem haldinn var í gærkvöldi í Reykjanesbæ.
Hvað er það sem þú telur að þú hafir sérstaklega fram að færa til kjósenda umfram aðra?
„Eitt af því er að ég reyni að tala um hvað ég get gert og hver ég er, en ekki að velta því fyrir mér hvort að ég sé betri en aðrir,“ sagði hún og bætti við:
„Ég hef einlægan áhuga á að vera hreyfiafl til góðs fyrir land og þjóð,“ sagði hún og útskýrði að þegar henni finnist að betur megi gera þá bretti hún upp ermar og gangi í verkið. Nefndi hún nokkur dæmi eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.
Stefán Einar Stefánsson spurði hana hvort hún væri mögulega að ofmeta hlutverk forsetans en þá sagði Halla:
„Ég held að við höfum aldrei á okkar líftíma verið á jafn miklum umbreytingartímum eins og núna og ég hef aldrei séð jafn mörg merki þess að andleg heilsa okkar og samfélagsleg heilsa sé ekki með besta móti.
Hvort sem það hefur verið gert áður eða ekki – það hafði enginn stofnað fjármálafyrirtæki með áherslu á kvenlegri gildi þegar við stofnuðum Auði Capital – ég er bara ekki manneskja sem hallar sér aftur og segir „af því eitthvað er að og af því enginn hefur nokkurn tímann leyst það þá ætla ég ekki reyna gera mitt til þess að gera það“,“ sagði Halla.
Horfðu á forsetafundinn í heild sinni: